Tenglar

30. ágúst 2016 | Umsjón

Fjöldi hugmynda og ábendinga varðandi ferðamál

1 af 2

Í gærkvöldi var haldinn á Reykhólum opinn fundur um ferðamál í Reykhólahreppi. Um 20 manns mættu, þar af 16 sem bjóða einhvers konar þjónustu fyrir ferðamenn. Markmið fundarins var að safna hugmyndum um hvað mætti betur fara og samhæfa upplýsingar, sem og undirbúa framhald. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Maríu Maack á Reykhólum, verkefnastjóra hjá Atvest. Samantekt hennar um fundinn fer hér á eftir. Jafnframt segir hún: Ef hér er ekki farið rétt með, komið leiðréttingum endilega á framfæri í athugasemdum.

 

Hér eru fyrst nokkrar tölur:

 

Reykhólahreppur greiðir árlega með upplýsingamiðstöð, sundlaug og tjaldstæði um 8,5 milljónir króna.

 

Samkvæmt teljurum Vegagerðarinnar hefur umferð um nágrannasvæði (Gilllastaðamela og Hjallaháls) aukist um 5 þúsund bíla í júlímánuði á tveimur árum. Árið 2014 fóru um Gillastaðamela 8.636 bílar í júlímánuði en núna 13.616. Ekki er vitað hve margir bílar stoppa í Reykhólahreppi.

 

Í júlí í ár komu 1.931 í upplýsingamiðstöðina á Reykhólum en 1.368 í júlímánuði árið 2014.

 

Í Grettislaug voru gestir í júlímánuði í sumar 2.371, þar af voru 255 erlendir.

 

Gistiheimilið gekk vel eftir að upplýsingar á netinu urðu aðgengilegar. En gesti staðarins vantar upplýsingar um nánasta umhverfi, fólk, staði og áhugaverða afþreyingu.

 

Almennt er talið að 99% gistinátta á landinu séu bókaðar sem ein stök nótt og ferðafólk á Reykhólum virðist ýmist á leið á Látrabjarg eða að koma þaðan.

 

Frásagnir og reynsla eftir sumarið:

  • Almennt eru ferðamenn fegnir hve fáir eru á ferli og róma náttúrufegurðina.
  • Ekta heimafengnu handverki er hrósað mikið. Lopapeysur með nafni prjónakonunnar runnu út. Einnig fallegt jólahandverk. Gömul tóvinnutæki vekja lukku. Allra mestur áhugi er þó sýndur ef fólk er að störfum, eins og við að kemba eða spinna. Rætt var um hvort hægt væri að sýna dúnhreinsun eða verkun selskinns eða aðra úrvinnslu sem tengist hlunnindum svæðisins.
  • Almennur búskapur, skepnuhald, fjós og fjárhús hafa komið upp í spurningum ferðamanna. Sumir bændur hafa fengið heimsóknir í útihús. Það er samt varhugavert að opna fjárhús upp á gátt á þessu svæði, sem selur sjúkdómalaus líflömb út um allt land.
  • Heimamenn vilja sjá fleiri ferðamenn og jafnframt betri afkomu af þeirri þjónustu sem veitt er. Varast skal að veita þjónustu sem ekki er rukkað fyrir, en erfitt að fylgja eftir boðum og bönnum um tjöldun. Óánægja er með marga þeirra gesta sem halda sig í svefnbílum, en sum bílaleigufyrirtæki hafa aflað upplýsinga til að dreifa til viðskiptavina og hvetja þá til að virða tjaldstæði. Ókeypis gisting var fljót að spyrjast út, talnalásum á sumarhúsum var dreift á samfélagsmiðlum og ýmis trix kennd þeim sem þráast við að greiða fyrir þjónustu.
  • Betri merking um staðsetningu tjaldstæðis og lauga vantar innan þéttbýlisins. Þótt skilti sé við innkomuna virðist fólk ekki lesa það, enda erfitt að stoppa á þessum slóðum og letrið smátt. Misskilnings gætir um heitið Grettislaug þar sem fleiri slíkar eru á Íslandi. Spurning hvort hægt sé að fegra útlit Grettislaugar á Reykhólum og færa það nær ímyndinni um náttúrulaugar. Einnig væri hægt að hlaða upp hina eiginlegu Grettislaug í slakkanum undir Reykjabraut. Mikið er spurt í hvaða náttúrulaugum megi baða sig og vonbrigði þegar í ljós kemur að hverir eru of heitir til baða. En Kúalaug verður hlaðin upp og höfð ásjálegri, til dæmis fyrir fótabað. Á tjaldstæðinu við sundlaugina – sem iðulega er fullt af tjöldum, bílum og fólki – ættu að vera upplýsingar um hin tjaldstæðin. Þaðan berast kvartanir um sóðaskap og erfitt aðgengi að rafmagni.
  • Stóra mynd sem sýnir þjónustu (svipað og er við komuna á Hólmavík) væri æskilegt að setja upp við þéttasta þjónustukjarnann. Yfirlitskort um allan hreppinn með gönguleiðum og skoðunarverðum stöðum á heimaslóðum, litlum frásögnum og þjónustu væri æskilegt að útbúa. Það ætti að ná milli innri og ytri marka hreppsins. Hafið samband við Maríu með slíkar smásögur.
  • Afgreiðslutímar upplýsingamiðstöðvar henta ekki öllum. Betra væri að hafa opið fyrr á morgnana, að sögn ferðaþjóna. Einnig væri æskilegt að hafa opið í versluninni fyrr á morgnana og/eða lengra fram á kvöld. Verslunareigendur hafa þó verið liprir að koma til að opna þegar hringt hefur verið eftir þeim. Hins vegar veigra ferðamenn sér við að hringja eftir þjónustu. Sumir myndu hins vegar alltaf koma að versla korter í lokun, sama hvenær lokað væri.

 

Óleyst mál:

 

Hvorki var stungið upp á sérstakri vetrarþjónustu, né afþreyingu fyrir börn og unglinga ferðamanna. Ekki var heldur settur fingur á einhvers konar sérstöðu sem hægt væri að nýta sameiginlega fyrir svæðið í heild.

 

Vilji er til að bjóða út tjaldstæði hreppsins og færa þar með gjaldtöku, viðhald og hreinsun á leigutaka. Athugandi er hvort ungmenni gætu tekið öll tjaldstæði svæðisins í fóstur og þar með unnið sér inn í samræmi við vinnuframlag.

 

Ekki er einhugur um hvers konar þróun er áhugaverð í tengslum við bátasafnið og hlunnindasýninguna. Auðveldara er að fá fjármuni til safns sem er viðurkennt og haldið opnu allan ársins hring. Hins vegar hvíla meiri kvaðir á safni en sýningu. Þótt Galdrasýningin á Hólmavík sé vel þekkt, sérstök og ofarlega á vinsældalistum, þá á veitingaskálinn ekki síður hlut að velgengni staðarins. Galdrar og góður matur virðist höfða til mjög breiðs hóps gesta. Til stendur að móta stefnu fyrir Báta- og Hlunn til framtíðar.

 

Allir eru sammála um að það þurfi að hafa salernisaðstöðu á nokkrum stöðum í hreppnum, annars fyllist trjálendið af sora. Gott salerni með rennandi vatni þarf að þrífa og halda við. Ekki var leyst úr þeirri gátu hver ætti að taka það að sér, en vatnssalerni sem opið er allan ársins hring væri gott að geta sýnt á kortinu sem nefnt er ofar. Ef til vill hentar slíkt við sundlaug. Kamrar koma einnig til greina og þá víðar. Kannað verður hver reynsla hefur verið af mismunandi gerðum af náðhúsum.

 

Úrbætur og nýjungar:

 

Núna á þriðjudagskvöldið 6. september er næsti samráðsfundur í Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi um sameiginlegt svæðisskipulag Stranda, Dala og Reykhólasvæðisins. Efnið er Þróun heimahaganna, hugmyndir og sjónarmið.

 

Verið er að teikna stíga sem síðan verða lagðir um hverasvæðið ásamt veglegum merkingum. Það mál er í farvegi frá hendi sveitarstjórnar. Það er ekki síst viðvörun við hættum og verndun viðkvæmra svæða, sem og almennar staðarupplýsingar sem lagt er upp með.

 

Það vantar veitingastað. Nú er í deiglunni að opna veitingastað í tengslum við búðina og vonast er til að aðstaðan verði klár næsta sumar.

 

Til stendur að útbúa eins konar leitarleiki til að leiða fólk um áhugaverða staði á göngu um Reykhólahrepp. Einnig er hugmyndabræðingur í gangi um sögugöngur sem tengjast Gufudal.

 

Enn fremur var lagt til að seld verði stök egg til að sjóða í hverum. Þetta er vinsælt í Japan.

 

Athygli skal vakin á því að Fræðslumiðstöð Vestfjarða stefnir á að halda svæðisleiðsögunámskeið í vetur. Kennt verður í gegnum netið og í lotum. Námið er í samræmi við MK.

 

Undir lokin voru fundarmenn og ferðaþjónar hvattir til að tala þjónustu svæðisins upp. Það er betra fyrir alla ef gott umtal er veganesti og athygli vakin á þeirri þjónustu sem boðin er í sveitarfélaginu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30