Tenglar

11. ágúst 2015 |

Fjöldi mynda frá Ólafsdal - aðalvinningurinn ósóttur

Ólafsdalsgrænmeti, veitingar og handverk á markaði. Allar myndirnar sem hér fylgja tók Frank Bradford.
Ólafsdalsgrænmeti, veitingar og handverk á markaði. Allar myndirnar sem hér fylgja tók Frank Bradford.
1 af 18

Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins, telur að allt að 400 manns hafi komið á Ólafsdalshátíðina á laugardaginn. Gestirnir komu að sjálfsögðu víðs vegar að; úr Dölum og Reykhólahreppi og af Ströndum, margir af höfuðborgarsvæðinu og úr öðrum landshlutum, og svo ferðamenn innlendir og erlendir sem voru á svæðinu. Myndirnar frá hátíðinni sem hér fylgja tók Frank Bradford, ljósmyndari frá Skotlandi, og kennir þar ýmissa ólíkra grasa. Meðal annars getur að líta nærri sextuga dráttarvél frá Seljanesi í Reykhólasveit og stúlku á handahlaupum. Hér eru myndirnar ekki í réttri tímaröð.

 

Hátíðina setti Torfi Ólafur Sverrisson, afkomandi Guðlaugar og Torfa í Ólafsdal. Kynnir var Ingi Hans Jónsson, sagnamaður í Grundarfirði, og fór á kostum (afleiðingarnar má sjá á myndum 13 og 14). Hátíðarræðu flutti Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis. Gunnar Bragi kom víða við, en hér skal þess aðeins getið, að hann tilkynnti árlegt framlag af ráðstöfunarfé ráðherra til Ólafsdalsfélagsins meðan hann væri í því embætti. Bætti við í gamansömum tón, að þá væri eins gott að hann yrði það sem lengst.

 

Varðandi nánari skilning á ýmsum myndanna sem hér fylgja skal bent á dagskrá hátíðarinnar.

 

Hér var greint frá því að María Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólasveit myndi á hátíðinni flytja erindi undir heitinu Torfi og Guðlaug, Játvarður og Rósa. Erindi hennar verður birt hér á Reykhólavefnum á morgun.

 

Aðalvinningurinn ósóttur

 

Núna í dag hafði þriggja vinninga af tuttugu í Ólafsdalshappdrættinu ekki verið vitjað. Þar á meðal er aðalvinningurinn, tveir farmiðar á einhvern áfangastað Primera Air að verðmæti allt að 130-150 þúsund krónur. Ef ekki verður búið að vitja hans innan tveggja vikna, þ.e. sunnudaginn 23. ágúst, mun hann hlotnast þeim sem dreginn er úr pottinum í annarri tilraun. Þessi vinningur kom á miða nr. 99. Hinir ósóttu vinningarnir komu á miða nr. 180 (gisting á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð) og 234 (veitingar á veitingastaðnum Gló). Vinninganna má vitja hjá Rögnvaldi Guðmundssyni í síma 693 2915 eða á rognvaldur@rrf.is.

 

Mjög vaxandi aðsókn í Ólafsdal

 

Opið verður í Ólafsdal fram á sunnudag, 16. ágúst, en áfram verður tekið upp úr garðinum a.m.k. næsta mánuðinn ef veður leyfir. Þá verður unnið að því að bæta fræðslustíginn, en í það fékkst styrkur frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

 

Rögnvaldur segir að mjög vaxandi aðsókn hafi verið að Ólafsdal í sumar og gestir almennt mjög áhugasamir og fróðleiksfúsir. „Þá hafa flestir þegið rjómavöfflur og kaffi og allmargir Erpsstaðaísinn gómsæta. Framundan er mikil uppbygging húsanna í Ólafsdal, sem kynnt verður nánar á næstunni,“ segir hann.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29