Fjölluðu sérstaklega um ástandið í Gufudalssveit
Konur af öllu landinu sóttu tólfta kvennaþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem haldið var á Patreksfirði um síðustu helgi. Konurnar 150 sem sóttu þingið ræddu meðal annars slysavarnamál barna og hvernig forvarnir eru sameiginleg ábyrgð allra. Ályktað var um samgöngu- og fjarskiptamál á Vestfjörðum, en ferðalagið um vegina á sunnanverðum Vestfjörðum kom mörgum kvennanna á óvart. Slysavarnakonur vilja skora á samgönguyfirvöld og Alþingi að tryggja heilsárssamgöngur við aðra landshluta vegna þess hve malarvegirnir eru víða í óásættanlegu ástandi og að þeir bjóði hreinlega upp á slys.
Ástandið á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalsveit var tekið sérstaklega fyrir og mælt með að úrbætur á honum verði í forgangi. Konurnar ályktuðu einnig um fjarskiptamál á Vestfjörðum og skora á fjarskiptafyrirtæki að sjá til þess að fjarskiptakerfi séu ávallt í lagi og varaleiðir tiltækar ef bilanir koma upp.