Tenglar

10. janúar 2019 | Sveinn Ragnarsson

Fjölmenni á fundi hjá Vegagerðinni

1 af 25

Kynningarfundur um Vestfjarðaveg (60) sem Vegagerðin hélt á Reykhólum í gær var fjölsóttur, eins og fundir þeir sem haldnir hafa verið undanfarið um sama efni. Nálægt 150 manns komu, alþingismenn, fulltrúar Vestfjarðastofu, sveitarstjórnarfólk, áhugamenn um samgöngur og fulltrúar fyrirtækja, og síðast en ekki síst fjölmennti heimafólk.

Á síðu Vegagerðarinnar eru nú komnar kynningarglærur og skýrsla um umferðaröryggismat.  


Guðmundur Valur Guðmundsson forstöðumaður hönnunardeildar hjá Vegagerðinni var með framsögu og rakti á liðlega 5 korterum sögu málsins frá árinu 2003 til dagsins í dag. Flestir sem á annað borð hafa fylgst með þessum ósköpum öllum þekkja söguna, en hér er þetta í mjög stuttu máli;


Júlí 2003: Vegagerðin leggur fram drög að tillögu að matsáætlum vegna mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Eyrar.


Feb. 2004: Skipulagsstofnun fellst á tillögu að matsáætlun.


Nóv. 2005: Matsskýrsla lögð fram. Vegagerðin leggur til leið B í umhverfismati (vegna mesta umferðaröryggis og mestu styttingar)


Nóv.-des. 2005: Matsskýrsla auglýst. Framkvæmdinni skipt í 3 áfanga:

1.       Bjarkalundur – Þórisstaðir

2.       Þórisstaðir – Kraká

3.       Kraká – Eyri.

Kynntar voru 3 leiðir á áfanga 2: B, C og D.


Feb. 2006: Úrskurður Skipulagsstofnunar. Fallist á áfanga 1 og 3, og leið D á áfanga 2. Leið B hafnað vegna umhverfisáhrifa.


Mars 2006: Vegagerðin ofl. kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra.


Jan. 2007: Umhverfisráðherra heimilar leið B (með skilyrðum, og vísun í að aukið umferðaröryggi vegi upp neikvæð umhverfisáhrif) Landeigendur ofl. kæra úrskurð ráðherra. Héraðsdómur dæmir úrskurð umhverfisráðherra ómerkan (sept. 2008) Áfrýjað til Hæstaréttar.


Okt. 2009: Hæstiréttur staðfestir dóm Héraðsdóms. Ekki sé heimilt að nota aukið umferðaröryggi til að vega upp neikvæð umhverfisáhrif – telur hins vegar ekki að neikvæð umhverfisáhrif útiloki leið B.


2009 – 2012: Nokkrir fundir með ráðherrum, heimamönnum og öðrum hagsmunaaðilum. Vegna óvissu um lausnir í Gufudalssveit var stefnan sett á verkefni vestar, Þverá – Þingmannaá, Skálanes og Eiði – Þverá.


Júlí 2012: Drög að matsáætlun með leiðum D1, H og I. Hörð gagnrýni kom fram hjá m.a. sveitastjórnum um að leið B1 væri ekki inni.


Júní 2013: Tillaga að matsáætlun með B1 lögð fram. Skipulagsstofnun hafnar; B1 var ekki nýr kostur.


Júlí 2014: Ný tillaga að matsáætlun með leiðum A1, D2, H, I og Þ-H. Skipulagsstofnun hafnar leið Þ-H, ekki nýr kostur, þó tekið fram að forsendur geti verið til endurupptöku vegna breyttra forsendna.


Des. 2014: Vegagerðin leggur fram beiðni um endurupptöku.


Maí 2015: Skipulagsstofnun heimilar endurupptöku á fyrri úrskurði frá 2006.


Sept. 2015: Ný tillaga að matsáætlun með leiðum A1, D2, H1, I og Þ-H lögð fyrir Skipulagsstofnun.


Des. 2015: Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun.


Okt. 2016: Frummatsskýrsla lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun.


Okt. – des. 2016: Framkvæmdin og frummatsskýrslan auglýstar opinberlega.


8. nóv. 2016: Kynningarfundur Vegagerðarinnar á Reykhólum. Framkvæmdin og mat á umhverfisáhrifum hennar kynnt.


Feb. 2017: Matsskýrsla lögð fram.


Mars 2017: Álit Skipulagsstonunar, það hljóðaði á þessa leið:

Skipulagsstofnun telur að áður en ákvarðanir eru teknar um þveranir fjarðanna þurfi að fara fram frekari rannsóknir á straumum og botnseti. Leið D2 felur í sér minnst inngrip í leirur og vistkerfi þeirra. Þveranir samkvæmt hinum leiðunum fjórum geta mögulega haft frekari áhrif á leirur en Vegagerðin gengur útfrá í matsskýrslu sinni, en um það ríkir óvissa.

Skipulagsstofnun telur að leið D2 sé sá kostur sem uppfylli best markmið laga nr. 106/2000 um að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda. Jafnframt er að mati stofnunarinnar óvissa um áhrif þverana fjarðanna á eðlisþætti sjávar og lífríki fjöru og grunnsævis sem ekki verður eytt nema með frekari rannsóknum.

Út frá þekktum áhrifum á birkiskóglendi, votlendi, leirur og sjávarfitjar, tegundir sem njóta verndar, menningarminjar og landslag er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að leiðir A1, I og Þ-H séu að öllu samanlögðu líklegar til að hafa í för með sér talsverð til veruleg neikvæð umhverfisáhrif sem ekki sé hægt nema að takmörkuðu leyti að fyrirbyggja eða draga úr með mótvægisaðgerðum.

Minnt er á að allar veglínur kalla á breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps.


Des. 2017: Auglýsing á tillögu að breytingu á aðalskipulagi (Þ-H, D2)


Feb. 2018: Fundur með sveitarstjórn Reykhólahrepps, farið yfir svör Vegagerðarinnar við spurningum sveitarstjórnar.


Mars 2018: Sveitarstjórn Reykhólahrepps velur leið Þ-H og samþykkir að auglýsa breytingu á aðalskipulagi.


Apríl 2018: Skipulagsstofnun samþykkir að auglýsa megi aðalskipulagsbreytingu.


Júlí 2018: Skýrsla Multiconsult lögð fram. Í framhaldi óskar sveitarstjórn eftir að Vegagerðin taki leið R til frekari skoðunar.


Okt. 2018:  Kynnt frumathugun á valkostum R og A3.


Des. 2018: Valkostagreining Viaplan kynnt.


Jan. 2019: Birt umferðaröryggismat fyrir leiðir Þ-H, D2, A3 og R, og íbúafundur á Reykhólum.


Niðustöður umferðaröryggismats eru, að leiðir A3 og Þ-H eru mjög sambærilegar með tilliti til umferðaröryggis og koma best út í samanburði þessara 4 leiða. Ókostur A3 er að hún er 5 km. Lengri en Þ-H og lágbogar ekki nógu stórir. Það sem dregur leið Þ-H niður í samanburðinum er hið óþekkta varðandi núverandi vegi ( því verið er að bera saman lengri leið en búið er að hanna), t.d. vegferla og breiddir.

Þegar leið D2 er borin saman við A3 og Þ-H þá kemur sú leið verr út, þá helst vegna hæðar í landi og langhalla, sem á köflum er töluvert mikill.

Þar sem leið R byggir að þriðjungi á að notast við núverandi veg, sem uppfyllir ekki kröfur um vegferla, 8 m. vegbreidd og fláa, þá kemur leið R mun óhagstæðar út m.t.t. umferðaröryggis en hinir valkostirnir.


Guðmundur fór yfir ýmsar tölulegar staðreyndir um umferðaröryggi, þar skiptir megin máli radíus í beygjum, bratti í brekkum, vegbreidd, sjónlínur og ökuhraði og umferðarþungi.


Hann fór einnig yfir sjónarmið Vegagerðarinnar varðandi skýrslu Multiconsult og valkostagreiningu Viaplan.

Vegagerðin fellst ekki á leið R eins og Multiconsult leggur til, vegna þess að Reykhólasveitarvegur uppfyllir engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til stofnvega, og vísar að öðru leyti til Frumathugunar á valkosti um Reykjanes (leið A3).


Athugasemdir við valkostaskýrsluna frá Viaplan eru þær helstar að Vegagerðin er ósammála því að umferðaröryggi sé sambærilegt á öllum leiðum; Þ-H, D2, A3 og R, og vísar í áðurnefnda skýrslu. Umferðartölur sem gengið er út frá eru ekki réttar. Ekki eru notuð nein gögn úr skýrslu um samfélagsleg áhrif nýs Vestfjarðavegar sem unnin var af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri, des. 2017.


Fundargestir fengu að bera upp spurningar og svöruðu þeim greiðlega eftir föngum, Guðmundur, Magnús Valur Jóhannsson, G. Pétur Matthíasson og Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri. Einkum var spurt um tímasetningar, ástæður ákvarðana og kostnað við það sem á undan er gengið.

Flest öll svörin við spurningunum um hvenær búast mætti við að mögulegt væri að hefja framkvæmdir innihéldu orðið ef.

 

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30