Tenglar

28. september 2011 |

Fjölmenni við tökur á franskri mynd í Reykhólasveit

Catherine Frot.
Catherine Frot.

Um sextíu manna lið leikara, tökufólks og annarra þeirra mörgu sem að kvikmyndatöku vinna kom í dag í Reykhólasveitina og verður næstu daga við tökur á atriðum í leikinni franskri kvikmynd í fullri lengd. Aðalhlutverk leikur Catherine Frot sem er mjög þekkt í Frakklandi og hefur m.a. leikið á móti Gérard Depardieu en er miklu minna þekkt utan sinna landsteina. Upptökurnar fara fram við höfnina á Stað á Reykjanesi og hvílir mikil leynd yfir því verki. Öryggisverðir sjá til þess að engir óviðkomandi komi nálægt tökusvæðinu og myndatökur eru bannaðar. Skip með pramma í eftirdragi kom í Reykhólahöfn í dag með leikmyndina sem notuð er.

 

Fransk-íslenska fyrirtækið Comrade Film annast alla fyrirgreiðslu og skipulagningu og aðstoð við tökurnar hérlendis og á þess vegum eru hér vestra um þrjátíu manns. Vinnan við tökur á myndinni byrjar hér á landi en aðrir hlutar verða teknir í Frakklandi. Nafn myndarinnar verður Le saveur du palais.

 

Um tuttugu íslenskir statistar taka þátt í tökunum hér vestra, þar á meðal úr Reykhólasveit, en það er fólk sem Leikfélagið Skrugga sá um að útvega. Þannig eru alls um áttatíu manns í hópnum sem að verkinu kemur við þessar upptökur.

 

Búast má við að næstu nætur verði legið í hverju rúmi um alla Reykhólasveit og kannski tvímennt í einhverjum tilvikum, ef ekki þrímennt, enda ekki gistihús í héraðinu sem geta hýst allan þennan fjölda.

 

Hér er um sannsögulega mynd að ræða um franska konu sem var kokkur hjá François Mitterrand forseta Frakklands (forseti frá 1981 til 1995) en fór síðan á Suðurskautslandið til að elda ofan í vísindamenn. Sá hluti myndarinnar er tekinn upp hérlendis og í Reykhólasveitina kemur mannskapurinn frá Gufuskálum á Snæfellsnesi. Ekki verður um fleiri tökustaði að ræða hér á landi.

 

Catherine Frot byrjaði leikferil sinn rétt um tvítugt að loknu leiklistarnámi. Hún byrjaði sem sviðsleikari en fljótlega lék hún í sinni fyrstu sjónvarpsmynd undir stjórn hins fræga Alain Resnais. Síðan hefur hún á liðlega þrjátíu ára ferli leikið ýmist á sviði eða í kvikmyndum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31