Fjölsóttur fundur um valkostaskýrslu
Íbúafundur sem haldinn var í gær á Reykhólum var vel sóttur. Auk heimafólks sem fjölmennti, komu fulltrúar frá Vestfjarðastofu, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, sveitarstjórnarfólk af Vestfjörðum, áhugafólk og hagsmunaaðilar, en það eru auðvitað allir þeir sem eitthvað byggja á samgöngum um þetta svæði.
Efni fundarins var að kynna og skýra niðurstöðu valkostagreinigar á leiðum fyrir nýjan Vestfjarðaveg (60) í Gufudalssveit. Lilja G. Karldóttir sem vann skýrsluna, kynnti hana og gerði grein fyrir forsendum sem unnið var frá við gerð hennar. Það er ekki auðvelt að endursegja það í stuttu máli. Hingað til hafa leiðirnar verið metnar eftir því -með nokkurri einföldun-, hver styttir leiðina hér í gegn mest, hver er ódýrust, öruggust og hagkvæmust. Flestir þekkja hvernig það hefur verið metið.
Í þessari valkostagreiningu er samfélagsþátturinn tekinn með, þ.e. hvaða áhrif leiðaval gæti haft á búsetu þar sem vegurinn liggur um og jafnframt hvort það breytir einhverju fyrir byggð annarsstaðar á sömu leið, þá er átt við Vestjarðaveg (60) allan, frá Dalsmynni ti Ísafjarðar. Eðli málsins samkvæmt breytir leiðaval hér afar litlu fyrir sunnan Reykhólahreppinn og tiltölulega litlu vestan við okkur.
Þá er farið að nálgast eldfima hluta þessa máls, því það skiptir byggð hér í sveitinni töluvert miklu máli hvaða leið verður fyrir valinu. Um það er ekki annað að segja en það, að það er verkefni sem þarf að klára og ákjósanlegast að fólk geti rætt það að einhverri niðustöðu.
Sá misskilningur hefur verið ríkjandi að Þ-H leiðin sé afgreidd og tilbúin til framkvæmda, einungis strandi á sveitarstjórn Reykhólahrepps að gefa út framkvæmdaleyfi. Sú er ekki raunin, hluti aðalskipulagsbreytingar er eftir, (þar geta orðið tafir vegna athugasemda) og gerð deiliskipulags vegna brúarsmíða, það ferli getur dregist líka. Hér er ekki verið að gera því skóna að það verði svo, en möguleikinn er fyrir hendi.
Á fundinum áréttuðu oddviti og sveitarstjóri að öllum væri frjálst að hafa sínar skoðanir á þessum málum, og hvöttu fólk til að koma þeim á framfæri, en að sjálfsögðu á málefnalegan hátt og virða skoðanir þeirra sem eru með aðrar hugmyndir.