Flateyjarbók er síðasta viðfangsefni Þjóðhátíðarsjóðs
Miðaldahandritið mikla Flateyjarbók er væntanlega kunnasti gripur sem ber nafn úr núverandi Reykhólahreppi. Fyrir skömmu var ákveðið að verja síðustu fjármunum Þjóðhátíðarsjóðs, sem nú hefur verið lagður niður, til viðgerða á bandi bókarinnar. Flateyjarbók hefur verið varðveitt í Árnastofnun í Reykjavík allt frá því að Helge Larsen, kennslumálaráðherra Dana, afhenti Gylfa Þ. Gíslasyni starfsbróður sínum hana með hinum frægu orðum: Vær så god, Flatøbogen!
Almenn hátíð var í Reykjavík þegar Danir byrjuðu að skila íslensku handritunum sem höfðu verið í Kaupmannahöfn um aldir. Í fyrstu sendingunni komu þau tvö sem merkust verður að telja, Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða (Codex Regius). Talið var að um 15 þúsund manns hefðu safnast saman á hafnarbakkanum í Reykjavík þegar danska herskipið Vædderen (Hrúturinn) lagðist að bryggju. Skólum, skrifstofum og ýmsum fyrirtækjum hafði verið lokað svo að fólk gæti verið viðstatt afhendinguna. Danskir sjóliðar báru handritin í land og íslenskir lögreglumenn tóku við þeim.
Flateyjarbók er skinnhandrit þar sem fróðleikssögur fyrri tíða voru skráðar með miklum glæsibrag og skreytingum í eina bók á árunum laust fyrir 1400. Brynjólfur Sveinsson Skálholtsbiskup fékk bókina úr Flatey um miðja 17. öld og sendi hana fljótlega Danakonungi að gjöf. Næstu þrjár aldirnar var Flateyjarbók einhver helsti kjörgripur Konungsbókhlöðunnar í Kaupmannahöfn eða allt fram til 1971 þegar Danir byrjuðu að skila handritunum heim.
Þjóðhátíðarsjóður var stofnaður í tilefni af 1.100 ára búsetu á Íslandi og var úthlutað styrkjum úr honum árlega frá 1977 til 2011. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fékk í byrjun þessa mánaðar síðustu fjármuni sjóðsins og verða þeir eins og áður segir notaðir til viðgerða á Flateyjarbók.
Mynd nr. 2 er af forsíðu Morgunblaðsins 22. apríl 1971: Vær så god, Flatøbogen! Henni fylgdi síðan Konungsbók Eddukvæða.