Tenglar

29. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fleira en salt framleitt í saltvinnslunni á Reykhólum

Á kaffistofunni: Søren, Garðar, Dalli, húsasmíðameistarinn Eiríkur og Bjarni Þór. Myndir: Reykhólavefurinn / hþm.
Á kaffistofunni: Søren, Garðar, Dalli, húsasmíðameistarinn Eiríkur og Bjarni Þór. Myndir: Reykhólavefurinn / hþm.
1 af 12

Þó að það hafi ekki verið á margra vitorði hingað til, þá verður sitthvað fleira en salt framleitt í saltvinnsluhúsinu nýja sem risið er við Reykhólahöfn. Þar má nefna garum-sósu að hætti Rómverja og Forn-Grikkja, eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Þessa dagana er verið að tengja heita vatnið inn í húsið og ekki síst í gær voru mikil umsvif bæði utan húss og innan. Auk heita vatnsins var verið að leggja í húsið kalt vatn, rafmagn og síma. Sjólögnin er líka að verða tilbúin, en með henni verður dælt inn sjónum sem saltið verður unnið úr.

 

Við eimingu saltsins úr sjó verður bæði notað snarpheitt affallsvatn frá Þörungaverksmiðjunni og að nokkrum hluta heitt vatn úr borholu Orkubús Vestfjarða á Reykhólum. Saltið verður ekki eins og það léttrennandi fíngerða borðsalt sem allir þekkja heldur verður það í flögum.

 

Garðar Stefánsson, sem stendur að þessu framtaki ásamt félaga sínum Søren Rosenkilde, segir að mikið hafi verið unnið í ímyndarsköpun vegna verksmiðjunnar. Hún hefur hlotið nafnið Norður & Co. en saltið sjálft verður nefnt Norðursalt.

 

„Við notum orðið norður til að skerpa á sérstöðunni og skrifum það með íslenska eðinu, jafnt á erlendum mörkuðum sem hér heima,“ segir Garðar. Hann segir að skammstöfunin Co. standi bæði fyrir cooperation (samvinnu) og community (samfélag). „Þetta á að undirstrika að við erum úti á landsbyggðinni, á Reykhólum við Breiðafjörð, þar sem möguleikarnir í framleiðslu matvöru eru ótrúlega miklir.“

 

Sjálft saltið verður frumframleiðslan í verksmiðjunni en síðan er ætlunin að hefja mjög fljótlega framleiðslu á fleiri vörum, sem einnig munu bera nafnhlutann Norður. Garðar segir að þar sé fyrst á dagskránni garum-sósa, þ.e. fiskisósa að hætti Rómverja og Grikkja í fornöld, sem samanstendur af salti og feitum fiski sem látinn er gerjast með ákveðinni aðferð.

 

„Garum er ótrúlega gott en hefur tapast að miklu leyti úr vestrænni menningu. Hins vegar hefur það varðveist í tælenskri matarmenningu. Margir þekkja tælenskt garum undir nafninu Thai Fish Sauce, sem er eitt mikilvægasta hráefnið í tælenskri matargerð.“

 

Aðspurður hvort einungis sé ætlunin að framleiða saltið á Reykhólum eða hvort aðrar salttengdar vörur sem fyrirhugaðar eru verði framleiddar þar líka, þá segir Garðar að þetta eigi allt að vera á sama stað. „Við byggðum svona stórt hús einmitt til að geta komið öllum áformum okkar í framkvæmd hér á Reykhólum í samvinnu við fyrirtæki og einstaklinga í hreppnum.“

 

Nokkrar fleiri framleiðsluvörur til matargerðar eru á döfinni en Garðar vill ekki greina nánar frá þeim opinberlega á þessu stigi. Við þróun þeirra hafa þeir félagar ráðið til starfa „þróunarkokkinn“ Styrmi Karlsson. „Jafnframt leitum við eftir samstarfi við fólk á svæðinu. Við sjáum hér mikil tækifæri til að þróa og framleiða matvörur.“

 

Enda þótt ekki verði annað sagt en bygging verksmiðjuhússins hafi gengið vel, þá hefði Garðar samt viljað að hún hefði gengið ennþá hraðar.

 

„Reykhólaiðnaðarmenn sem komið hafa að byggingunni hafa verið virkilega öflugir og ég er mjög ánægður með þá. Vissulega hefðum við viljað hefja framleiðslu núna í vor, en svona framkvæmdir taka alltaf eitthvað lengri tíma en ýtrustu væntingar standa til og má seinkunina rekja aðallega til hönnunar og smíði á framleiðslubúnaðinum okkar, sem er einstakur í alla staði. Lagnirnar klárast vonandi í næstu viku. Búnaðurinn til saltframleiðslunnar er alveg að klárast hjá Héðni. Við vonumst til að vera byrjaðir framleiðslu eftir mánuð eða í lok júní. Þá ætlum við að halda opnunarhóf og bjóða fólki að koma og skoða og kynna sér verksmiðjuna.“

 

Þeir félagar eru þegar búnir að ráða nokkra starfsmenn sem vinna munu í verksmiðjunni. Alls hafa milli tuttugu og þrjátíu manns komið að byggingu hússins með einum eða öðrum hætti.

 

„Við höfum nýtt okkur starfskrafta hér á Reykhólum eins og nokkur kostur hefur verið. Það er svo ótrúlegt, að það er eiginlega allt til staðar á Reykhólum til að byggja hús. Lærður húsasmíðameistari sem hefur verið yfir verkinu frá upphafi og unnið við það sjálfur, iðnaðarmenn, steypustöð, vélar og tæki af öllu tagi, Það er alls ekki sjálfgefið að hafa allt þetta á litlum stað úti á landi,“ segir Garðar.

 

Myndirnar sem hér fylgja voru teknar í gær og ættu að tala sínu máli. Þegar síðast var farið í myndatökuferð í húsið seint í mars var verið klára að steypa plötuna og húsið var ennþá allt einn geimur. Núna eru komnir innveggir sem eru sérstæðir að því leyti, að víða eru á þeim gluggar. Smellið á myndirnar til að stækka þær og takið sérstaklega eftir gluggunum inni.

 

Kristján Már Unnarsson fréttamaður kom í heimsókn á Reykhóla í gær og skoðaði framkvæmdirnar hjá þeim saltverjum. Afrakstur þeirrar heimsóknar í máli og myndum verður hægt að sjá í fréttum Stöðvar 2 einhvern næstu daga.

 

Fyrri fréttir á Reykhólavefnum:

25.03.2013 Búið að steypa plötuna

 04.02.2013 Byggingu saltvinnslunnar við Reykhólahöfn miðar vel

 23.01.2013 Stefnt að því að húsið verði fokhelt í næsta mánuði

 18.12.2012 Íslenska saltfélagið á Reykhólum í fréttum Stöðvar 2

 04.12.2012 Bygging saltvinnslu á Reykhólum hafin

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31