Fleiri annálar á þorrablótum fyrri ára
Ekki alls fyrir löngu var opnuð ný undirsíða hér á vefnum með heitinu Gamanmál (valmyndin til vinstri). Nú hefur verið bætt þar inn efni, þremur annálum fluttum á þorrablótum Reykhólahrepps á sínum tíma. Eins og hér sagði þegar þessi undirsíða var opnuð er ætlunin að safna þar saman með tíð og tíma ýmsu því sem kveðið hefur verið og samið til gamans í héraðinu. Ekki síst væri mikill fengur að annálum og gamankvæðum á þorrablótum og eftir atvikum öðrum samkomum á fyrri tíð. Efni af því tagi skemmtir vissulega viðstöddum á líðandi stund en þegar fram líður verður það auk þess og jafnvel fyrst og fremst merkilegar heimildir um mannlífið á þeim tíma - verður sögulegar heimildir.
Fólk sem á efni af þessu tagi í fórum sínum er eindregið hvatt til að koma því til umsjónarmanns vefjarins með einum eða öðrum hætti til birtingar, lesendum til skemmtunar, upprifjunar og fróðleiks í senn.