Tenglar

3. september 2012 |

Fljúgandi smalar á Stað tóku bensín í Bjarkalundi

1 af 4

Langt er síðan fjórhjólið byrjaði að veita hestinum samkeppni sem þarfasti þjónninn í smalamennsku en sjaldgæfara er að smalar séu á flugvélum. Það gerðist samt í gær þegar Þórður Valdimarsson og Óli Öder komu í heimsókn á Stað í Reykhólasveit á fisflugvélinni TF 151. Þeir mættu einmitt þegar var verið að undirbúa smölun í eyjunum fyrir framan Stað og Árbæ og drifu sig með til aðstoðar. Smölunin í eyjunum er upphaf smalamennskutímans á Stað og Árbæ.

 

Farið var á tveimur hestum út í eyjar en Þórður og Óli svifu yfir, tóku statusinn og létu vita hvar kindur voru og hvar ekki.

 

„Þetta var mikill sparnaður og skemmtileg tilbreytni í smölun, kindurnar tóku vélinni vel, enda ekki mikil hávaði af henni, og runnu létt heim“, segir Eiríkur Snæbjörnsson bóndi á Stað.

 

Tveir hópar fundust sem vélin gat sameinað og þá tóku við hestar og hjól sem ráku féð heim.

 

Þegar eyjarnar framan við Stað og Árbæ eru smalaðar er farið á fjöru, þar sem hægt er að fara um sjö kílómetra út í eyjar.

 

Geta má þess að Þórður Vald er vel kunnugur svæðinu enda var hann hér lengi í sveit á sínum yngri árum og er alltaf árlegur gestur í smalamennskum.

 

„Þessi nýjung getur sparað mikinn tíma og sérstaklega í eftirleitum. Aldrei að vita nema svona vél kíki við aftur“, segir Eiríkur á Stað.

 

Og ekki var vandamál með bensínið á vélina. Þeir félagar lentu einfaldlega á planinu við Hótel Bjarkalund og tóku bensín eins og sjá má á einni myndanna.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31