Flóamarkaður í íþróttahúsinu á Reykhólum
Flóamarkaður verður haldinn í anddyri íþróttahússins á Reykhólum kl. 13-17 á sunnudag, 11. mars, til fjáröflunar fyrir kynnis- og námsferð sem starfsfólk á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum ætlar að fara til Danmerkur í sumar. Þangað verður farið til að kynna sér Eden-heimili og starfið þar og markaðurinn er ein af leiðunum til að safna farareyri.
Þeir sem vilja gefa eitthvað á markaðinn, vilja kannski losa sig við eitthvað sem gæti nýst öðrum vel, geta haft samband við Hallfríði Valdimarsdóttur (Höllu) í síma 847 2539.
Athugið, að enginn posi verður á staðnum.
Starfsfólk Barmahlíðar hefur kynnt sér Eden-stefnuna svonefndu, en heimilislegt andrúmsloft og umhverfi er kjarninn í hugmyndafræði hennar. Inntak hennar er að skapa þá tilfinningu að fólk búi ekki á stofnun heldur á góðu og notalegu heimili.