Tenglar

22. ágúst 2015 |

Flotbryggjan í Staðarhöfn hugsanlega fjarlægð?

Mesti munur flóðs og fjöru í Staðarhöfn er gríðarmikill og flotbryggja því óvíða nauðsynlegri. Myndirnar tók Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ.
Mesti munur flóðs og fjöru í Staðarhöfn er gríðarmikill og flotbryggja því óvíða nauðsynlegri. Myndirnar tók Ása Björg Stefánsdóttir í Árbæ.

„Við undirrituð beinum því hér með til sveitarstjórnar Reykhólahrepps, að fundin verði lausn á kaupum á þeim flotbryggjubúnaði sem nú er í Staðarhöfn, á vegum einstaklings, ásamt því að tryggður verði rekstur þessa búnaðar sem hluta hafnarinnar.“ Þannig hljóðar erindi frá nokkrum helstu notendum hafnarinnar á Stað á Reykjanesi, sem tekið var fyrir á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps á fimmtudag. Undir lok greinargerðar með erindinu segir: „Nú hafa þær aðstæður skapast að umræddri ferðaþjónustu hefur verið hætt, og hyggst sá sem kostaði flotbryggjuna selja hana á staðnum eða að öðrum kosti fjarlægja hana og koma í verð með öðrum hætti.“

 

Greinargerðin með erindinu er þannig í heild: 

  • Árið 1967 er byggð bryggja á Stað, svokölluð ferjubryggja, sem notuð var meðal annars til að skipa upp áburði, kjarnfóðri og fleiri vörum og sinna þannig þjónustu við íbúa svæðisins.
  • Þegar farið var að ræða sameiningu sveitarfélaga var það talið forgangsverkefni að bæta hafnaraðstöðu við ferjubryggjuna þannig að hægt væri að skilja báta eftir þar í öruggri höfn. Þessu var strax vel tekið af þeim sem fjármagni ráða.
  • Höfnin og sjórinn eru hluti af vegakerfi sveitarfélagsins út í Vestureyjar Breiðafjarðar og nýtist mörgum, t.d. eyjamönnum, bændum á fastalandi, þangsláttarmönnum, ferðamönnum og fleirum.
  • Frá Staðarhöfn eru örugglega mörg áhugaverð sóknarfæri í ferðaþjónustu, þar sem verið er að tala um að dreifa ferðamönnum meira um landið yfir háannatímann.
  • Rétt er að benda á, að Staðarhöfn er eina örugga lífhöfnin fyrir smábáta í Reykhólahreppi í öllum veðrum. Þess má geta, að nú þegar er mikil umferð um höfnina yfir sumarið og fer vaxandi.
  • Árið 1987 eru allir hreppar í A-Barð sameinaðir í eitt sveitarfélag. Í framhaldi af því var ráðist í að bæta hafnaraðstöðuna með því að gera öruggt bátalægi við ferjubryggjuna. Þetta var gert á vegum Vita- og hafnamála eins og ferjubryggjan. Í upphaflegu áætluninni var gert ráð fyrir að setja flotbryggju í bátalægið, sem er nauðsynlegt, þar sem þarna er um sex metra munur á háflóði og fjöru. Af þessu varð ekki á sínum tíma af einhverjum ástæðum.
  • Með vaxandi umferð og rekstri ferðaþjónustu frá Staðarhöfn kom í ljós, að útilokað var að bjóða upp á viðunandi þjónustu við höfnina án flotbryggju. Því var það, að sá aðili sem hóf ferðaþjónustu frá Staðarhöfn til Vestureyja og nágrennis sá fram á, að annað hvort var að koma upp flotbryggju eða hætta rekstri. Þrátt fyrir umleitanir fengust opinberir aðilar ekki til þess að ljúka verkinu og setja upp flotbryggju. Því sá rekstraraðilinn (einstaklingur) alfarið um að kosta og koma upp nauðsynlegum flotbryggjubúnaði og annaðist rekstur hans um árabil.
  • Nú hafa þær aðstæður skapast að umræddri ferðaþjónustu hefur verið hætt, og hyggst sá sem kostaði flotbryggjuna selja hana á staðnum eða að öðrum kosti fjarlægja hana og koma í verð með öðrum hætti.
  • Benda má á, að verði Staðarhöfn skráð sem B-höfn, fiskihöfn, þá verður hún styrkhæf og þar með skapast betri möguleikar á rekstri hennar.
  • Því beinum við því til sveitarstjórnar Reykhólahrepps, að fundin verði lausn á kaupum og rekstri flotbryggjunnar að Stað og að þessum búnaði verði komið í varanlegt rekstrarform.

 

Undir ofanritað erindi ásamt greinargerð rita Eiríkur Snæbjörnsson á Stað, Þórður Jónsson í Árbæ, Egill Teitur Eysteinsson, Jóhannes Geir Gíslason, Alfreð V. Þórólfsson, Hildigunnur Jóhannesdóttir og Andrés Gísli Vigdísarson í Skáleyjum, Þorvaldur Þór Björnsson í Hvallátrum og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.

 

Afrit var sent innanríkisráðuneytinu (sem fer með hafnamál eins og önnur samgöngumál) og Vegagerðinni.

 

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða að komið yrði á fundi með bréfriturum og farið yfir málið.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31