Tenglar

7. júlí 2011 |

Flugvélar í biðröð eftir bensíni á Reykhólum

Sérkennileg biðröð eftir því að fá bensín í Hólakaupum á Reykhólum.
Sérkennileg biðröð eftir því að fá bensín í Hólakaupum á Reykhólum.
1 af 2

Níu fisvélar með tólf mönnum lentu á flugvellinum á Reykhólum síðdegis í gær. Þetta eru félagar í Fisfélagi Reykjavíkur í hinni árlegu stóru ferð sinni út um land. Bensín var tekið við verslunina Hólakaup enda ekki langt að fara því að búðin er innan við hundrað metra frá enda flugbrautarinnar. Ekki getur talist algengt að biðröð flugvéla sé við bensíntankinn á Reykhólum en það hefur þó gerst áður.

 

Einn í hópnum í gær var hinn þekkti vestfirski flugmaður Hálfdán Ingólfsson á vélinni sem hann og fleiri smíðuðu sjálfir á Ísafirði fyrir aldarfjórðungi og bar framan af skráningarnúmerið TF-AGN. Hálfdán hefur lent vélinni á ýmsum nánast fáránlegum stöðum, þar á meðal „á hnífsegg“ á fjallinu Erni við Skutulsfjörð um hávetur.

 

Þeir félagar lögðu upp frá Reykjavík í gær, lentu fyrst á Stóra-Kroppi í Borgarfirði, svo í Búðardal og síðan á Reykhólum þar sem tekið var bensín, étnar pulsur og pissað.

 

„Næst var ætlunin að lenda á Melanesi en þá var búið að eyðileggja völlinn þar með því að setja á hann grjót“, sagði Hálfdán í símaspjalli fyrir hádegið í dag. „Við lentum nokkrir á gömlum velli við Kleifaheiði en hann var svo gljúpur að hinir þorðu ekki að lenda. Svo lentum við líka nokkrir á Rauðasandi en þá var aðfall og sandurinn svo gljúpur að hinir lentu ekki þar. Síðan fórum við á Patró og þaðan í Reykjanes í Djúpi til gistingar. Núna er ætlunin að fara út í Kaldalón og yfir Drangajökul í Reykjarfjörð og lenda þar og fá okkur pissustopp. Síðan fyrir Strandir og fyrir Horn og lenda í Fljótavík, tyllum okkur kannski líka niður í Aðalvík, og þaðan á Ísafjörð. Svo er ekki ákveðið hvort við förum á morgun norður í Skagafjörð eða á Suðurlandið.“

 

Hálfdán Ingólfsson var um langt árabil flugmaður hjá Flugfélaginu Erni á Ísafirði og kom þar aftur til starfa þegar félagið hóf áætlunarflug frá Reykjavík á Bíldudal, Gjögur, Sauðárkrók og Höfn fyrir nokkrum árum. Ásamt Herði Guðmundssyni stofnanda og eiganda Ernis, sem fyrir nokkrum vikum hætti sem atvinnuflugmaður þegar hann varð 65 ára, er Hálfdán reyndasti sjúkraflugmaðurinn á Vestfjarðakjálkanum. Líkt og Hörður lét hann sér ekki veður og skuggalegar aðstæður fyrir brjósti brenna þegar mikið lá við. Þess má geta, að Flugfélagið Ernir ber nafn fjallsins við Skutulsfjörð en ekki íslensku arnanna, eins og margir hafa haldið. Sá misskilningur er vel skiljanlegur enda flýgur örninn fugla hæst en fjallið Ernir er vel jarðbundið.

 

Vélina sem áður hét TF-AGN smíðuðu á Ísafirði veturinn 1986-87 bræðurnir Hálfdán, Örn og Hörður ásamt Ingólfi Eggertssyni föður sínum og Samma lækni og taldist hún þá tilraunaloftfar. Eftir að reglum um skráningarflokka var breytt ber vélin númerið TF-109.

 

Segja má að félagsmenn í Fisfélagi Reykjavíkur fljúgi öllu sem hægt er að fljúga, allt frá svifdrekum til venjulegra flugvéla, svo framarlega sem heildarþyngdin fer ekki yfir 450 kg. Þannig getur eigin þyngd tveggja manna fisvélar án bensíns ekki verið nema vel innan við 300 kg.

 

Smellið á meðfylgjandi myndir til að stækka þær. Myndasyrpu frá komu fisvélanna að Reykhólum er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Reykhólar 6. júlí 2011 í valmyndinni vinstra megin.

 

Sjá einnig:

25.07.2007  Fisvélaferðin um Vestfirði var engu lík

24.07.2007  Á leið í hádegismat á Ísafirði

 

Athugasemdir

Harpa Eiríksdóttir, fimmtudagur 07 jl kl: 12:59

mjög skemmtilegt að hitta þessa hressu menn og sjá allar þessar flottu svifvélar. Það er nú ekki á hverjum stað þar sem hægt er að lenda og rölta í sjoppuna til að fá sér pulsu og kók

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30