Flutningabíll útaf í Gufufirði
Flutningabíll valt í gær í Gufufirði, innst á Hofsstaðahlíð. Hann var að mæta minni bíl á mjög mjóum vegi, en smá snjórastir eru í köntunum svo vegurinn sýnist aðeins breiðari en hann í raun og veru er. Á þessum stað er akbrautin innan við 6 m.
Frá áramótum er þetta 2. flutningabíllinn sem veltur á þessum kafla, frá slitlagsenda sunnan við Skálanes og að Gufudal.
Á síðasta ári fóru 11 bílar útaf á þessum kafla, sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í þessum óhöppum en eignatjón var mikið.
Þetta undirstrikar nauðsyn þess að lagfæra núverandi veg um Gufsuna, þó nýi vegurinn eigi að vera handan við hornið, þá er þetta algjörlega óásættanlegt.
Flutningabíllinn sem fór útaf núna var með fullfermi af lambahornum, sem voru að fara í vinnslu á Tálknafirði í gæludýrafóður. Upphaflega hugmyndin var að ná bílnum upp á veginn með farminum, en það reyndist ógjörningur. Því verður að tæma vagninn á staðnum, en gæta þarf ítrustu varúðar vegna smithættu. Hornin flokkast sem sláturafurðir og eru hvaðanæva af landinu, en hér er hreint svæði og laust við búfjársjúkdóma, eins og riðu.
Haraldur Þorsteinsson, laugardagur 16 febrar kl: 13:23
Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Vilja menn nota það fjármagn sem ætlað er í veg um þetta svæði til að lapa upp á troðningana meðan fundin eru fleiri ráð til að tefja alvöru vegalagningu?