Fólki fækkaði lítillega milli ára
Samkvæmt nýbirtum mannfjöldatölum Hagstofu Íslands hefur fólki í Reykhólahreppi fækkað um 9 milli ára, þar af um 4 á Reykhólum (miðað er við 1. janúar 2013 og 2014). Núna um áramótin voru íbúar Reykhólahrepps 3,9% af mannfjölda á Vestfjarðakjálkanum* (6.972) eða 0,08% af mannfjölda á landinu öllu (325.671).
Mannfjöldi 1. janúar ár hvert
Reykhólahreppur Reykhólar Vestfjarðakjálkinn*
2005 262 114 7.597
2006 251 117 7.446
2007 255 119 7.361
2008 267 129 7.238
2009 280 134 7.287
2010 291 131 7.266
2011 278 128 7.037
2012 271 121 6.955
2013 280 133 7.031
2014 271 129 6.972
Flatarmál Reykhólahrepps, skv. tölum Landmælinga Íslands, er 1.090 ferkílómetrar. Það eru 12,3% af flatarmáli Vestfjarðakjálkans* (8.842 ferkílómetrar) og 1,06% af flatarmáli landsins alls (103.000 ferkílómetrar).
* Hér er miðað við sveitarfélagaskipan á Vestfjarðakjálkanum, bæði hvað varðar mannfjölda og flatarmál. Landfræðileg mörk hans eru milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar (þar sem tröllin voru á sínum tíma að grafa kjálkann frá meginlandinu en dagaði uppi). Sjá meðfylgjandi kort, þar sem rauða línan tengir botna Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Sú vegalengd er um 11 kílómetrar. Strandabyggð nær hins vegar lítillega „inn á meginlandið“ og Dalabyggð á svolítið svæði fyrir norðan mörkin, eins og sjá má á kortinu. Tölur um mannfjölda í Strandabyggð sunnan Bitrufjarðarbotns og um flatarmál umræddra svæða í Strandabyggð og Dalabyggð liggja ekki fyrir.