Fólki kíki niður á veg með potta og sleifar
Krakkarnir í 6.-8. bekk í Reykhólaskóla hjóla í dag um Reykhólahrepp endilangan, eða vestan úr Kjálkafirði og allt austur í Gilsfjörð. Tilgangurinn er tvíþættur, annars vegar að safna áheitum vegna hefðbundinnar Danmerkurferðar, sem krakkarnir fara þegar þau eru í 8.-10. bekk, og hins vegar að vekja athygli á ástandi vegamála í Reykhólahreppi og þá einkum í Gufudalssveit.
Vegalengdin sem krakkarnir hjóla er um 120 kílómetrar, þar af nokkrir tugir kílómetra á malar- eða drulluvegi. Erfiðustu kaflarnir eru yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Nokkrir foreldrar fylgja krökkunum á bílum.
Ungmennin hjóla tvö og tvö saman fimm kílómetra í einu. Þau vonast eftir frjálsum framlögum, sem munu renna óskipt til Danmerkurferðarinnar. Leggja má inn eða millifæra á reikning Nemendafélags Reykhólaskóla:
0153-26-010152
kt. 600214-0630
Fyrir þá sem vildu kannski leggja fram tíkall á hvern kílómetra yrðu það 1.200 krónur, tuttugu krónur á kílómetra yrðu 2.400 krónur, þrjátíu krónur á kílómetra yrðu 3.600 krónur, fjörutíu krónur á kílómetra yrðu 4.800 krónur ...
„Það væri alveg æðislegt fyrir krakkana ef fólk, sérstaklega þeir sem búa á sveitabæjunum við veginn, sæi sér fært að fylgjast með hvernig gengur og kíkja niður á þjóðveg með potta og sleifar og hvetja krakkana áfram þegar þau hjóla framhjá,“ segir Jóhanna Ösp Einarsdóttir, æskulýðs- og tómstundafulltrúi.
Hjólakrakkarnir bjóða öllum þeim sem vilja að hjóla með sér síðasta spölinn, eða frá vegamótunum upp á Þröskulda að endamarkinu í Gilsfirði. „Gaman væri ef ungir sem aldnir kæmu og hjóluðu með okkur þennan síðasta spotta.“
Upplýsingar um framvinduna í dag verða settar inn í athugasemdirnar hér fyrir neðan. Þar verður þannig hægt að fylgjast með því hvenær mannskapurinn nálgast Geiradalshreppinn gamla, ef fólk vill slást í förina við vegamótin fyrir neðan Tinda og Ingunnarstaði.
Jóhanna Ösp tók myndirnar sem hér fylgja - settar inn smátt og smátt, kannski ekki allar í alveg réttri tímaröð!
Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 11:24
Erum byrjuð að klífa Klettsháls gengur rosa vel kv jóhanna