Tenglar

30. maí 2015 |

Fólki kíki niður á veg með potta og sleifar

Lagt af stað í Kjálkafirði.
Lagt af stað í Kjálkafirði.
1 af 18

Krakkarnir í 6.-8. bekk í Reykhólaskóla hjóla í dag um Reykhólahrepp endilangan, eða vestan úr Kjálkafirði og allt austur í Gilsfjörð. Tilgangurinn er tvíþættur, annars vegar að safna áheitum vegna hefðbundinnar Danmerkurferðar, sem krakkarnir fara þegar þau eru í 8.-10. bekk, og hins vegar að vekja athygli á ástandi vegamála í Reykhólahreppi og þá einkum í Gufudalssveit.

 

Vegalengdin sem krakkarnir hjóla er um 120 kílómetrar, þar af nokkrir tugir kílómetra á malar- eða drulluvegi. Erfiðustu kaflarnir eru yfir Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Nokkrir foreldrar fylgja krökkunum á bílum.

 

Ungmennin hjóla tvö og tvö saman fimm kílómetra í einu. Þau vonast eftir frjálsum framlögum, sem munu renna óskipt til Danmerkurferðarinnar. Leggja má inn eða millifæra á reikning Nemendafélags Reykhólaskóla:

 

0153-26-010152

kt. 600214-0630

 

Fyrir þá sem vildu kannski leggja fram tíkall á hvern kílómetra yrðu það 1.200 krónur, tuttugu krónur á kílómetra yrðu 2.400 krónur, þrjátíu krónur á kílómetra yrðu 3.600 krónur, fjörutíu krónur á kílómetra yrðu 4.800 krónur ...

 

„Það væri alveg æðislegt fyrir krakkana ef fólk, sérstaklega þeir sem búa á sveitabæjunum við veginn, sæi sér fært að fylgjast með hvernig gengur og kíkja niður á þjóðveg með potta og sleifar og hvetja krakkana áfram þegar þau hjóla framhjá,“ segir Jóhanna Ösp Einarsdóttir, æskulýðs- og tómstundafulltrúi.

 

Hjólakrakkarnir bjóða öllum þeim sem vilja að hjóla með sér síðasta spölinn, eða frá vegamótunum upp á Þröskulda að endamarkinu í Gilsfirði. „Gaman væri ef ungir sem aldnir kæmu og hjóluðu með okkur þennan síðasta spotta.“

 

Upplýsingar um framvinduna í dag verða settar inn í athugasemdirnar hér fyrir neðan. Þar verður þannig hægt að fylgjast með því hvenær mannskapurinn nálgast Geiradalshreppinn gamla, ef fólk vill slást í förina við vegamótin fyrir neðan Tinda og Ingunnarstaði.

 

Jóhanna Ösp tók myndirnar sem hér fylgja - settar inn smátt og smátt, kannski ekki allar í alveg réttri tímaröð!

 

Sjá líka hér

 

Athugasemdir

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 11:24

Erum byrjuð að klífa Klettsháls gengur rosa vel kv jóhanna

Steinunn Ó. Rasmus, laugardagur 30 ma kl: 12:22

Hér eru svo sannarlega flottir og kröftugir krakkar á ferð. Nú rifjast upp þegar krakkarnir í Reykhólaskóla gengu fyrir Gilsfjörð fyrir all mörgum árum til að vekja athygli á og berjast fyrir brú yfir fjörðinn. Slagorðið var: "Áfram nú, Gilsfjarðarbrú".

Hjòlahòpurinn, laugardagur 30 ma kl: 13:57

Erum ì pylsuveislu à sķálanesi, miðsvæðis ì reykhòlahreppi, verðumì beinni á bylgjunni kl hàlf 3

Ingibjörg B Erlingsdóttir, laugardagur 30 ma kl: 15:08

Krakkarnir okkar er nú komnir upp Ódrjúgsháls! Duglegir krakkar!

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 15:47

Erum að reyna að komast upp hjallaháæsen það gengur hægt og þetta er erfiður kafli, verður gott að komast á malbik aftur...

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, laugardagur 30 ma kl: 15:48

Verð eiginlega að útskýra hvers vegna ég leiðrétti ekki villuna sem ég gerði í fyrirsögninni hérna fyrir ofan í morgun. Ef ég breyti einhverju í fyrirsögn í þessu vefkerfi, þó ekki sé nema einum staf, þá rofnar tengingin við Facebook. Hafa annars ekki allir tekið eftir villunni? Ef ekki, þá finnið hana! – Og áfram nú, út á Gilsfjarðarbrú!

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 15:48

*hjallahálsinn

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 16:50

Hjallahálsinn búin komin a malvikið engir malarvegir eftir, hlökkum til að sjá ykkur viðþröskulda

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 17:36

Jæja þá erum við að nàlgast bjarkalund nú mà fólk fara að græja sig í að slást í hópinn!! Afsakið innsláttarvillurnar en það er svo litið lyklabotð i símanum ;)

Hjólahópurinn, laugardagur 30 ma kl: 18:18

Næsta holl leggur af stað við bæ :) bæ bæ

Jóhanna Ösp, laugardagur 30 ma kl: 22:53

Jæja komin á almennilegt lyklaborð ;) Takk fyrir daginn allir, þetta voru rúmlega 9 klukkutímar, 3 hálsar, MARGIR firðir og hressir krakkar sem rúlluðu þessu öllu upp. Adda á skálanesi var svo ágæt að lána okkur grillið sitt þannig að við gátum grillað pylsur, Hólabúð gaf okkur orkudrykki, Bjarkalundur gaf okkur pizzu og ótal aðilar eru búnir að styrkja (eða gefa loforð um styrk). Hlynur fjallaði svona líka vel um okkur og leyfði öllum að fylgjast með. Takk takk!

Eitt að lokum, sunnudagur 31 ma kl: 10:14

Að sjálfsögðu er ennþá hægt að leggja inn á krakkana, söfnunin í fullu fjöri ennþá :D

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30