Tenglar

12. mars 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fólkið í Reykhólahreppi blés sameiginlega í seglin

Myndir: Árni Geirsson, Sveinn Ragnarsson og Þórarinn Ólafsson.
Myndir: Árni Geirsson, Sveinn Ragnarsson og Þórarinn Ólafsson.
1 af 20

„Mætingin fór langt fram úr væntingum,“ segir Viktoría Rán Ólafsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða (Atvest) um íbúaþingið á Reykhólum á sunnudag. Yfir fimmtíu manns sátu þennan langa vinnufund að meðtöldu fólki frá Atvest, ráðgjafastofunni Alta, Vatnavinum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Úr Reykhólahreppi sátu fundinn 43 og verður hlutfall kvenna í þeim hópi að teljast gott.

 

Þess má geta, að um síðustu áramót voru íbúar í hinum víðlenda Reykhólahreppi á aldrinum 21-70 ára 167 talsins, þar af 76 í þorpinu á Reykhólum skv. tölum Hagstofu Íslands. Þátttaka fólksins í vinnufundi af þessu tagi hlýtur að teljast ótrúleg.

 

Svo virðist sem almenn ánægja sé með fundinn. Umsjónarmaður þessa vefjar hefur heyrt í nokkrum íbúum sveitarfélagsins sem sátu hann og þar voru allir á einu máli: Gott framtak sem heppnaðist sérlega vel. Þær fáu stikkprufur segja þó kannski ekki alla söguna - endilega látið í ljós álit ykkar í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan.

 

Eins og fram kom í kynningu var gert ráð fyrir því að hægt væri að hafa börnin með sér og haft yrði ofan af fyrir þeim meðan fundurinn stæði. Fólk notfærði sér þetta og séu börnin talin með hafa eitthvað upp undir sjötíu manns sótt fundinn, ef svo má segja. Kannski saga til næsta bæjar að um fimmtungur íbúa í sveitarfélagi komi á vinnufund um skipulagsmál og atvinnumál.

 

„Reykhólahreppur á því hrós skilið og greinilegt er að Ingibjörg Birna sveitarstjóri og sveitarstjórnin hafa verið dugleg að undirbúa fundinn,“ segir Viktoría Rán.

 

Frá ráðgjafastofunni Alta sátu fundinn þau Árni Geirsson og Halldóra Hreggviðsdóttir eiginkona hans, svo og tveir skipulagsfræðingar. Alta sá um seinni hluta fundarins, sem snerist um skipulag á svæðinu neðan við (sunnan við) Reykhólaþorp.

 

„Menn virðast vera að vakna til meðvitundar um þau tækifæri sem búa í náttúrufegurð og orku- og hráefnaauðlindum á þessu svæði“, segir Árni. „Þá skiptir máli að öllu sé haganlega fyrir komið og ein starfsemi spilli ekki fyrir annarri. Það þarf líka að tryggja að svæðið sé eftirsóknarvert til búsetu ekki síður en til styttri heimsókna og því þarf að reyna að halda í sérstöðu og náttúruleg gæði þótt jafnframt sé myndað svigrúm fyrir starfsemi. Þess vegna er nauðsynlegt að setja skipulag og staðarval á litlu svæði í stærra samhengi og fá heildarsýn“, segir hann.

 

„Við skiptum þátttakendum í litla hópa og báðum þá um að tilgreina þær upplifanir sem njóta má eða mætti njóta á Reykhólum, líkt og ef til stæði að taka á móti góðum gesti. Það er óhætt að segja að þátttakendur hafi tekið vel við sér og fram kom fjölmargt sem upplifa má. Margir nefndu hveri, siglingar, gönguleiðir og fuglalíf en meðfram kom fram ótalmargt annað sem áhugavert er að moða úr. Sannleikurinn er sá, að þótt við Halldóra höfum haft annan fótinn í Reykhólasveit í bráðum tólf ár og oft farið að Reykhólum hefur ekkert bent til þess að alla þessa dásemd sé þarna að finna. Við hlökkum því til að kynnast þessu öllu betur sjálf“, segir Árni Geirsson verkfræðingur.

 

Viktoría Rán annaðist fyrri hluta fundarins, sem snerist um atvinnumál í sveitarfélaginu öllu.

 

„Þátttakendur skiluðu okkur sérlega góðu efni til að vinna úr. Heimamenn voru frjóir og komu með margar metnaðarfullar hugmyndir fyrir framtíðina. Atvinnumálin voru rædd frá fjölmörgum ólíkum sjónarhornum og mér fannst sérlega skemmtilegt að heyra íbúana kynna áherslur sínar“, segir hún.

 

„Framundan bíður töluverð úrvinnsla þar sem við skoðum hugmyndir heimamanna, flokkum aðalatriðin og skoðum hvert mál í stóru samhengi út frá samfélagslegum, efnahagslegum og jafnvel vistfræðilegum þáttum. Spennandi verður að sjá hvort íbúaþingið ásamt niðurstöðum þess leiði til betri samstöðu og ákvarðanatöku um málefni sveitarfélagsins. Mér fannst íbúarnir að minnsta kosta sýna mikinn áhuga að blása sameiginlega í seglin og sýna mikinn vilja til að gera gott sveitarfélag enn betra“, segir Viktoría Rán Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.

 

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri er mjög ánægð með fundinn.

 

„Hann var frábær. Unnið af krafti allan tímann, fjögurra klukkustunda stanslaus hugarleikfimi og vinna. Stjórnendur fundarins voru frábærir og fengu fólk léttilega til liðs við sig. Kvenfélagið Katla sá um að endurnæra mannskapinn í miðjum klíðum. Elínborg og Grétar héldu utan um börnin af mikilli natni og andrúmsloftið hjá þeim var rólegt og þægilegt allan tímann. Ég vil endilega koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í þessum hluta verkefnanna. Það verður gaman að fylgjast með framvindunni“, segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps.

 

Hér fylgja allmargar myndir frá þinginu en langtum fleiri er að finna undir Ljósmyndir, myndasöfn > Myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin. Nær allar myndirnar tóku (í stafrófsröð) Árni Geirsson, Sveinn Ragnarsson og Þórarinn Ólafsson.

 

08.03.2013 Dagskrá íbúaþingsins á Reykhólum

06.03.2013 Vinnufundur um framtíðina: Atvinnumál og skipulag

 

Alta

Alta - Árni Geirsson

Alta - Halldóra Hreggviðsdóttir

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða

 

Endilega deilið!

 

Athugasemdir

Sig.Torfi, fimmtudagur 14 mars kl: 01:04

Þó að það sé oft auðveldara að gagnrýna en að hrósa, að þá eiga þau sem stóðu að þessum íbúafundi stórt hrós skilið, hvort sem það er Viktoría, Alta, sveitastjórinn eða sveitastjórnin... Virkilega flott framtak..

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30