Tenglar

16. desember 2012 |

Fólksfækkunin í sýslunni - og húsnæðið núna

1 af 3

Flateyjarhreppur (Eyjahreppur) var á fyrri tíð langfjölmennasti hreppurinn í Austur-Barðastrandarsýslu. Á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900 voru búsettar þar vel á fimmta hundrað manneskjur en síðan fækkaði jafnt og þétt. Fimm hreppar voru í sýslunni allt fram til 1987 þegar þeir voru sameinaðir í einn undir heiti Reykhólahrepps, eins af gömlu hreppunum fimm. Þá var fólkið í hreppnum sameinaða allnokkru færra en var í Flateyjarhreppi einum á sínum tíma.

 

Myndirnar sem hér fylgja gætu orðið áhugasömum til fróðleiks. Allar tölur eru frá Hagstofu Íslands.

 

Þeim sem þetta ritar á vef Reykhólahrepps þykir sérkennilegt, að íbúafjöldi þriggja af hreppunum fimm skuli vera nákvæmlega sá sami 1901 og 1910. Auðvitað getur svo verið þó að tölfræðilegar líkur fyrir slíku séu afar litlar. Þess vegna kemur í hugann sú spurning, hvort einhver hafi einhvern tímann farið línuvillt eða dálkavillt. Því fer þó fjarri að slíku sé hér slegið föstu.

 

Umsjónarmaður vefjar Reykhólahrepps útbjó súlnaritin og töfluna sem hér fylgja, að því undanskildu, að súluritið sjálft á mynd nr. 1 er að stofni til frá Hagstofunni, en þar bætti umsjónarmaður við tveimur síðustu súlunum fyrir Reykhólahrepp og skýringum fyrir neðan.

 

Myndirnar segja í rauninni allt sem segja þarf. Smellið á þær til að stækka.

 

Eins og oft hefur komið fram er enginn skortur á atvinnu á Reykhólahreppi. Þvert á móti gengur illa að fá fólk til starfa. Þannig eru forsendur þess að fólkinu fjölgi prýðilegar að því leyti. Það sem plagar allra helst er skortur á húsnæði. Verið er að byggja upp ný fyrirtæki á Reykhólum og mjög metnaðarfull áform eru í vinnslu. En – hvar á starfsfólkið (og fjölskyldur þess) sem þessi áform krefjast að búa?

 

Athugasemdir

Jónas Ragnarsson, sunnudagur 16 desember kl: 19:47

Mjög áhugaverðar upplýsingar og vönduð framsetning. Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjustu tölum Hagstofunnar eftir áramótin.

Guðjón D. Gunnarsson, mnudagur 17 desember kl: 00:59

Ég er ekki sammála því, að nóg atvinna sé í hreppnum og hefur ekki verið lengi.
Þeir, sem ekki gátu unnið í ÞV eða Barmahlíð, fluttu burt. Um annað var og er ekki að velja. Ég efast um að það nái 10% fæddra 1970 til 1990, sem enn eru í hreppnum.
Húsnæðisskorturinn stafar af því, að engin störf bjóðast, sem geta staðið undir byggingakostnaði.

Hlynur Þór Magnússon, mnudagur 17 desember kl: 01:16

Kannski spurningin um eggið og hænuna, veit það ekki. Síðustu árin hefur aftur og aftur og aftur verið auglýst eftir fólki í ýmis störf á Reykhólum - yfirleitt án árangurs.

Guðjón D. Gunnarsson, mnudagur 17 desember kl: 12:57

Hér, eins og annars staðar á Vestfjörðum, hefur aldrei mælst atvinnuleysi að marki, af þeirri einföldu ástæðu, að fólkið flytur burt. Duglegt fólk, sem er eftirsótt til vinnu.
Þeir, sem eftir sitja, eru að verða gamlir og fáir til að annast þá.
Hingað er erfitt að fá fjármagn til atvinnusköpunar og sveitarstjórnir hafa ítrekað sniðgengið heimamenn til margra verka.
Er húsnæðisskortur? Hér eru hús til sölu.

Björk Stefánsdóttir, rijudagur 18 desember kl: 00:44

Hvar eru hús til sölu hér? og ég verð nú að vera ósammála þér Dalli, hér er mikið af ungu fólki, og harðduglegu, og ef þú verður gamall þá er Barmahlíðin málið, þar er fólk í vinnu sem annast fólk. En skoðun mín er sú, að núna virðist vera bjart yfir atvinnumálum hér, en ekkert húsnæði, það er ekki hægt að auglýsa eftir fólki og segja því um leið að það verði að byggja sér þá í leiðinni ef það vill flytja hingað. Hreppurinn verðu með einhverjum hætti að koma að byggingu íbúðarhúsa, það er kannski hægt að stofna eitthvert félag um það, ÞV kæmi líka að því og kannski einstaklingar. Ég skil vel að hreppurinn geti ekki byggt og byggt en það er ekki nóg að fólk sé að koma hér og skapa störf og hreppurinn ætlar ekkert að koma til móts við þessa góðu þróun. Það er verið að byggja á Hólmavík, því þar vantar fólki húsnæði en kannski engin nýjung í atvinnumálum þar. Það er næg vinna hér fyrir fólk og það finnst mér yndislegt vandamál. En ekki gleyma því að hingað hefur flutt mikið af ungu fólki og t.d í Gufsuna sem er æðislegt

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, rijudagur 18 desember kl: 10:58

Reykhólabúi sendi eftirfarandi í tilefni af umræðu um húsnæðismál:

Á Grenivík búa 350 manns. Þar eru nokkur öflug fyrirtæki, m.a. fiskvinnsla og fleira. Þar vantar fólk til starfa. Á Grenivík hyggst sveitarstjórnin reisa leiguíbúðir á næsta ári. Í viðtali við Vikudag segir sveitarstjórinn til 25 ára, Guðný Sverrisdóttir: „Það er skortur á íbúðarhúsnæði á Grenivík. Við þurfum að eiga húsnæði fyrir fólk sem vill flytjast hingað og er ekki tilbúið að fara að byggja sjálft.“

Jón Ingi Kristjánsson, rijudagur 18 desember kl: 11:11

Athygliverðar og fróðlegar upplýsingar allar, en þó sérstaklega fyrir mig tímabilið 1960 til 1980 sem ég man bezt eftir á þessum slóðum.
Það er gott til að vita og virðingarvert að ungt og framsækið fólk skuli vilja byggja upp og búa á Reykhólum og víðar í hreppnum, eða annarstaðar á landsbyggðinni en aftur á móti ekki gott ef vantar húsnæði. Ég hef oft hugsað til þess að hér á höfuðborgarsvæðinu er mikið af fullbyggðu og hálfbyggðu húsnæði frá árunum fyrir "hrun", sem væri auðvitað betur komið á landsbyggðinni einhverjum til gangns og afnota, frekar en að standa hér autt og tómt engum til gagns, víða eru heilu hverfin eins og draugabyggðir eftir hrunmeistarana.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31