Fólksfækkunin í sýslunni - og húsnæðið núna
Flateyjarhreppur (Eyjahreppur) var á fyrri tíð langfjölmennasti hreppurinn í Austur-Barðastrandarsýslu. Á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900 voru búsettar þar vel á fimmta hundrað manneskjur en síðan fækkaði jafnt og þétt. Fimm hreppar voru í sýslunni allt fram til 1987 þegar þeir voru sameinaðir í einn undir heiti Reykhólahrepps, eins af gömlu hreppunum fimm. Þá var fólkið í hreppnum sameinaða allnokkru færra en var í Flateyjarhreppi einum á sínum tíma.
Myndirnar sem hér fylgja gætu orðið áhugasömum til fróðleiks. Allar tölur eru frá Hagstofu Íslands.
Þeim sem þetta ritar á vef Reykhólahrepps þykir sérkennilegt, að íbúafjöldi þriggja af hreppunum fimm skuli vera nákvæmlega sá sami 1901 og 1910. Auðvitað getur svo verið þó að tölfræðilegar líkur fyrir slíku séu afar litlar. Þess vegna kemur í hugann sú spurning, hvort einhver hafi einhvern tímann farið línuvillt eða dálkavillt. Því fer þó fjarri að slíku sé hér slegið föstu.
Umsjónarmaður vefjar Reykhólahrepps útbjó súlnaritin og töfluna sem hér fylgja, að því undanskildu, að súluritið sjálft á mynd nr. 1 er að stofni til frá Hagstofunni, en þar bætti umsjónarmaður við tveimur síðustu súlunum fyrir Reykhólahrepp og skýringum fyrir neðan.
Myndirnar segja í rauninni allt sem segja þarf. Smellið á þær til að stækka.
Eins og oft hefur komið fram er enginn skortur á atvinnu á Reykhólahreppi. Þvert á móti gengur illa að fá fólk til starfa. Þannig eru forsendur þess að fólkinu fjölgi prýðilegar að því leyti. Það sem plagar allra helst er skortur á húsnæði. Verið er að byggja upp ný fyrirtæki á Reykhólum og mjög metnaðarfull áform eru í vinnslu. En – hvar á starfsfólkið (og fjölskyldur þess) sem þessi áform krefjast að búa?
Jónas Ragnarsson, sunnudagur 16 desember kl: 19:47
Mjög áhugaverðar upplýsingar og vönduð framsetning. Það verður fróðlegt að fylgjast með nýjustu tölum Hagstofunnar eftir áramótin.