Tenglar

28. júlí 2014 | vefstjori@reykholar.is

Fólksfjöldinn á Reykhólum margfaldaðist

Ljósm. Herdís Erna Matthíasdóttir.
Ljósm. Herdís Erna Matthíasdóttir.
1 af 4

Byggðarhátíðin Reykhóladagar sem hófst á fimmtudag og stóð þangað til síðdegis í gær heppnaðist eins vel og framast mátti verða. Erfitt er að áætla af einhverri nákvæmni fjölda gesta á hátíðinni, en þeir skiptu að minnsta kosti mörgum hundruðum. Ljóst er hins vegar að gestum fjölgar með hverju árinu og mannfjöldinn í Reykhólaþorpi margfaldast á Reykhóladögum.

 

„Ég var mjög ánægð með hátíðina okkar, það var gaman að sjá hversu margir sáu sér fært að koma til Reykhóla og eiga með okkur góðar stundir. Skipulagið gekk afskaplega vel, á því voru engir hnökrar. Skemmtilegt er að sjá hina föstu liði vaxa og dafna, eins og hópakstur forntraktoranna og dráttavélafimina. Þær vekja mikla athygli, gömlu vélarnar, enda safnið af þeim hér í hreppi örugglega einstætt,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri um Reykhóladagana.

 

„Þá finnst mér gaman að sjá þátttöku íbúanna í hreppnum aukast með hverju árinu og ýmsir liðir eru að festast í sessi, eins og litakeppni hverfanna og sveitarinnar, spurningakeppnin, þaraboltinn og kassabílakeppnin. Og ekki sveik veðrið okkur í ár!“ segir hún.

 

Jafnframt vill Ingibjörg Birna þakka skipuleggjandanum Þorkeli Heiðarssyni, aðstoðarfólki hans og íbúum Reykhólahrepps fyrir vel heppnaða Reykhóladaga 2014.

 

„Núna eru Reykhóladagarnir afstaðnir og vel þess virði að líta til baka og sjá hvað við vorum heppin með veður og hvað það var vel mætt á alla dagskrárliði,“ segir Harpa Eiríksdóttir, ferðamálafræðingur á Stað, sem var hægri hönd Þorkels við skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar. Hún er jafnframt m.a. framkvæmdastjóri Báta- og hlunnindasýningarinnar og veitir Upplýsingamiðstöðinni á Reykhólum forstöðu.

 

„Dagskráin er smátt og smátt að festast í sessi. Bátabíóið hefur alltaf verið vinsælt og því var ákveðið að hafa tvær barnamyndir þetta árið. Á fyrri sýningunni voru liðlega 50 krakkar og 25 á þeirri seinni, en þar var mynd með ensku tali. Bæði pöbbkvissið og Spaðatónleikarnir á Báta- og hlunnindasýningunni var mjög vel sótt, pakkaður salur og allir skemmtu sér vel og gaman að sjá hvað fólk var ánægt með þessa nýjung. Á þessa tvo viðburði munu hafa komið yfir hundrað manns,“ segir hún.

 

„Föstudagurinn byrjaði með því að hestarnir mættu á svæðið í hellidembu. Þeir létu það ekki á sig fá, og ekki börnin heldur! Skemmtilegt að sjá svona marga krakka sem komu sérstaklega til að hitta hestana og fá að fara á bak. Um hádegi breyttist veðrið og stóð alla helgina í léttri golu og hita. Frábært veður sem við fengum,“ segir Harpa.

 

 

 

Fáeinir sundurlausir fróðleikspunktar varðandi hátíðina

 

  • Besta skreytingin: Staður
  • Frumlegasta skreytingin: Hellisbraut 24
  • Krúttlegasta skreytingin: Reykjabraut 8
  • Bjartasta vonin: Lóa á Miðjanesi

 

  • Magnús Þorgeirsson og Rebekka Eiríksdóttir unnu í sínum flokkum, þar sem karlar og konur sýndu fimi sína í drátttarvélakeppninni.
  • Sjö þriggja manna lið tóku þátt í spurningakeppninni. Eftir harða baráttu unnu Æðarungarnir. Tútturnar urðu í öðru sæti.
  • Á skemmtunina og veisluna í íþróttahúsinu á laugardagskvöld mættu um 150 manns. Síðan voru um 200 manns á ballinu og dansgólfið pakkað frá upphafi til enda.
  • Grundargengið sigraði í þaraboltanum.
  • Hoppikastalar og andlitsmálning og margt fleira var á dagskránni hjá Sjávarsmiðjunni á laugardag. Sundlaugarfjörið á sunnudagsmorgun var vel sótt og fólk skemmti sér konunglega.

 

Ekki er laust við að ýmsir séu farnir að hlakka til Reykhóladaga 2015 ...

 

Meðfylgjandi svipmyndir frá Reykhóladögum 2014 (myndir 1-3) eru fengnar traustataki af Facebooksíðu Herdísar Ernu Matthíasdóttur á Reykhólum. Á mynd nr. 4 er Þorkell Heiðarsson í bókhaldinu að loknum Reykhóladögum – og bara talsvert kátur yfir því!

 

 

Tilmæli: Fólk sem á góðar myndir frá Reykhóladögunum 2014 er eindregið beðið að senda þær til birtingar í myndasyrpu hérna á Reykhólavefnum, fyrst og fremst minninganna vegna. Netfangið er vefstjori@reykholar.is (Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður p.t.).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31