Tenglar

9. ágúst 2013 | vefstjori@reykholar.is

Formúla eitt á Reykhóladögum?

Framúrakstur utan á beygjunni á Hrafnanesi á leiðinni að Reykhólum.
Framúrakstur utan á beygjunni á Hrafnanesi á leiðinni að Reykhólum.
1 af 7

Bjarki Þór Magnússon frá Seljanesi í Reykhólasveit setti mynd nr. 1 sem hér fylgir inn á Facebook með þessum ummælum: Pabbi heldur að hann sé í formúlunni – á leiðinni til Reykhóla á Reykhóladögum. Auðvitað voru Bjarki og fjölskylda á Reykhóladögum eins og venjulega þó að þau séu búsett nánast eins langt í burtu og hægt er á Íslandi - austur á Kirkjubæjarklaustri.

 

Þarna á Hrafnanesinu er Magnús á Seljanesi að taka fram úr á sínum gamla góða Fergusyni, bensíntraktor frá 1952, hefur af einhverjum ástæðum verið ræstur síðastur. Slíkt hefur hent ekki minni menn en Michael Schumacher og Sebastian Vettel, svo einhverjir séu nefndir, og fara þá kröftugir menn fram úr jafnvel utan á beygjum. Þeirri skýringu hefur líka verið varpað fram að Magnús hafi ekki þolað reykinn úr Lansanum (Lanz, þýskur, frá 1956) sem hann er að fara fram úr. Einhver spurði hvort Magnús væri þarna að hringa hina - svo er ekki enda ekki farinn hringur fyrr en á Reykhólum.

 

Gömlu traktorarnir tugum saman setja meiri svip á Reykhóladaga en nokkuð annað. Fyrst er skrúðgangan - nú eða kappaksturinn ef menn vilja það heldur - þegar safnið mikla kemur innan frá Seljanesi, en feðgarnir þar hafa unnið ótrúlegt og ómetanlegt starf í þessum efnum. Svo batnar enn um betur þegar forntraktorar bræðranna á Grund koma í hópinn. Hersingin fer hringferðina um Reykhóla og síðan eru traktorarnir bæði til sýnis á túninu vestan við Mjólkurbúið og notaðir í dráttarvélakeppninni árvissu.

 

Eins og einhver sagði um myndina af framúrakstrinum: Þegar athugasemd Bjarka bætist við er þessi mynd aldeilis óborganleg. Í baksýn er Berufjörður í Reykhólasveit, sem nefndur hefur verið fegursti fjörður á Íslandi.

 

Á mynd nr. 2 er Magnús á Seljanesi í þokkalegri stöðu á Fergusyni rétt eftir beygjuna niður að Reykhólum en næstir á eftir honum tveir af sonum hans, þeir Bjarki Þór og Stefán Hafþór. Aðeins endaspretturinn eftir. Á mynd nr. 3 er Lansinn áðurnefndi. Á honum eru Jóhann Vívill, einn sonurinn enn frá Seljanesi, og Katrín Guðný Ágústsdóttir. Smellið á myndirnar til að stækka þær.

 

Athugasemdir

Eyvindur, laugardagur 10 gst kl: 08:48

Ómetanlegt starf sem þarna er unnið, bæði á Seljanesi og Grund, takk strákar

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31