Fornleifadeild NAVE starfar m.a. í Flatey og Dölum
Deildarstjóri fornleifadeildar fer í haust á fundi erlendis vegna þeirra Evrópuverkefna sem deildin mun taka þátt í á næsta ári.
Í apríl voru teknir könnunarskurðir vegna Urtagarðs í Nesstofu á Seltjarnarnesi. Í maí vann Margrét Hrönn Hallmundsdóttir deildarstjóri fornleifadeildar að því ásamt safnstjóra Lækningaminjasafns að setja upp sýningu á fornleifarannsóknum sem gerðar hafa verið í Nesi við Seltjörn síðan árið 1989. Sýningin ber nafnið Saga og framtíð, fornleifarannsóknir á vestursvæðum. Farið er yfir rannsóknarsögu í Nesi auk þess sem gripir sem grafnir hafa verið upp í Nesi eru til sýnis.
Í byrjun júní komu nemar frá Bretlandi og Skotlandi til starfa við fornleifarannsóknir á vegum deildarinnar. Nemarnir byrjuðu á því að grafa á Strákatanga á Ströndum en héldu síðan á Suðurland að vinna að uppgrefti í Koti á Rangárvöllum. Náttúrustofan hefur staðið að rannsóknum í Koti síðan 2005.
Í maí var unnið að skýrslu um fornleifarannsóknina á Þingvöllum sem fór fram á síðasta sumri og Sice Juel Hansen fornleifafræðingur var ráðinn til að skrá og ganga frá gripum úr Þingvallarannsókn.
Þetta kemur efnislega fram á vef Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík.