Fornleifafélagið fær rannsóknastyrki
Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna fær styrki úr Fornminjasjóði til tveggja verkefna, en úthlutunin var birt á vef Minjastofnunar Íslands í gær. Annað verkefnið er skráning fornleifa í Flatey á Breiðafirði en hitt er skráning bænhús- og kirkjustaða í Dalasýslu, samtals rúmlega tvær milljónir. Félagið hefur áður staðið fyrir skráningu menningarminja í Öxney, Akureyjum, Hergilsey, Oddbjarnarskeri og Skáleyjum og hefur látið skrá alla bænhús- og kirkjustaði í Austur-Barðastrandarsýslu.
Skýrslur um þessar rannsóknir má nálgast hér á vef Reykhólahrepps (Byggð og saga - skýrslur í valmyndinni vinstra megin) auk þess sem birtar hafa verið greinar í Árbók Barðastrandarsýslu.
Stefnt er að því að vinna að skráningu í Flatey og í Dalasýslu síðsumars og munu frekari fréttir þar að lútandi birtast hér á vefnum. Reykhólahreppur og Breiðafjarðarnefnd hafa sýnt verkefnum félagsins áhuga og stuðning. Formaður þess frá upphafi er Björn Samúelsson á Reykhólum.