Fornleifaskráning í Flatey.
Komin er hér á vefinn skýrslan Fornleifar í Flatey, hún er hér til vinstri undir Byggð og saga - skýrslur. Fornleifastofnun Íslands vann skýrsluna í samvinnu við Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna. Þarna er að finna gríðarmikinn fróðleik í máli og myndum, á liðlega 200 bls.
Inngangur skýrslunnar hefst svo:
Á öldum áður var talsverð byggð í mörgum af eyjum Breiðafjarðar en nú er svo komið að allar eyjarnar eru fallnar í eyði nema Flatey enda mikil hlunnindajörð og landgæði þar mjög góð. Í Flatey er enn búið árið um kring og eru að auki fjölmörg hús í eyjunni í notkun yfir sumartímann auk þess sem þangað liggur talsverður straumur ferðamanna. Því eru enn mikil umsvif í eyjunni, sér í lagi yfir sumarmánuðina.
Að öllum líkindum hefur Flatey verið þungamiðja gamla Flateyjarhrepps og Breiðafjarðar allt frá fyrstu öldum byggðar. Eyjan á sér því langa og merka sögu. Hennar er getið í Landnámu og víða í Íslendingasögum, fornbréfum, annálum, ferðabókum og jarðatölum svo eitthvað sé nefnt. Sóknarkirkja hreppsins var þar frá fornu fari, Ágústínusarklaustur um skamma hríð á seinni hluta 12. aldar auk þess sem staðurinn var verslunarstaður um aldir.