Forsetakjör: Margvíslegir fararskjótar á kjörstað
Kjördagurinn er bjartur og fagur í Reykhólasveit. Núna um kl. 12.30 höfðu 30% kosningabærra kosið á kjörstað en það mun vera svipað og venjulega. Fólk kemur á farartækjum af ýmsu tagi og skal hér fátt eitt talið, auk bíla: Grundarfólk kom á dráttarvélum allfornum, Einar Sveinn framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar og Hafdís kona hans komu á reiðhjólum (bæði með hjálm, að sjálfsögðu), Tómas (Tumi) Reykhólabóndi Sigurgeirsson kom á traktor sem er öllu voldugri en forntraktorarnir á Grund en Guðjón Dalkvist notaði tvo jafnlanga. Og Gylfi Helgason skipstjóri var með stráhatt en höfuðföt teljast að vísu ekki til farartækja.
Eins og endranær lá mjög vel á kjörstjórninni í Reykhólahreppi. Enda varla annað hægt þegar tekið er á móti svo mörgu skemmtilegu fólki.
Dráttarvélarnar þrjár á Grund rétt ofan við Reykhólaþorp sem núna fóru á kjörstað eru aðeins sýnishorn af þeim mikla fjölda fornvéla sem þeir Grundarbræður hafa gert upp á liðnum árum. Yfir sumartímann er þeim raðað þar upp eins og herfylkingu og ferðafólki er velkomið að skoða. Grund er rétt ofan við þjóðveginn kannski tvö hundruð metra vestan við vegamótin niður að Reykhólum og vélarnar blasa við öllum sem þangað koma.
Iðulega á hátíðisdögum á sumrin eru dráttarvélarnar gömlu á Grund á ferð niðri í þorpi og þá er stundum fjöldi manna fenginn til að aka svo að allir traktorarnir fái að viðra sig.Traktorunum þremur óku að þessu sinni bræðurnir Guðmundur og Unnsteinn Ólafssynir á Grund og Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir kona Guðmundar en með í för voru synir Ástu og Guðmundar, þeir Tindur Ólafur, Ketill Ingi og Kristján Steinn.
Traktorinn sem Ásta Sjöfn ók er Massey Ferguson 130 árgerð 1966 og því fimm árum eldri en ökumaðurinn. Hann er með fjögurra strokka 30 ha Perkins dísilvél, fjóra gíra áfram og tvo aftur á bak og hátt og lágt drif. Hann var upphaflega í eigu hinna landsþekktu Kinnarstaðasystra í Reykhólasveit en kom að Grund árið 1989. Þessi gerð af Massey Ferguson var smíðuð í Frakklandi á árunum 1966-1972. Hægt var að fá þessa traktora bæði án framljósa og með (deluxe-útgáfa) eins og þessi vél er.
Eins og hér hefur komið fram er að þessu sinni ekki kosið í Bjarkalundi vegna afmælishátíðarinnar sem þar stendur yfir. Þess í stað er kosið í skrifstofuhúsi Reykhólahrepps við Maríutröð á Reykhólum. Kjörfundi lýkur kl. 18.
Guðjón D. Gunnarsson, laugardagur 30 jn kl: 14:38
Ég hef þá komið á elsta farartækinu, model 1944.