Forseti, borgarstjóri, biskup - og Sigmundur Davíð
Svo skemmtilega vill til, að helsta fremdarfólk landsins um þessar mundir á rætur í Reykhólahreppi*) og hvergi djúpt eftir að grafa. Þar voru fyrir forseti Íslands, borgarstjórinn í Reykjavík og biskupinn yfir Íslandi (talið eftir starfsaldri í embætti og sama gildir um röðina á myndinni sem hér fylgir) og nú hefur forsætisráðherra bæst í hópinn. Hér verður lítillega gerð grein fyrir þessum rótum.
Afi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, Ólafur Ragnar Hjartarson, sem tók upp ættarnafnið Hjartar, fæddist á Kambi í Reykhólasveit þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma áður en þau fluttust til Þingeyrar. Faðir Ólafs Ragnars Hjartar og langafi forsetans, Hjörtur Bjarnason, var frá Hamarlandi í Reykhólasveit.
Faðir Jóns Gnarr borgarstjóra var Kristinn Óskarsson frá Eyri í Kollafirði í Gufudalssveit. Kristinn var lögreglumaður syðra en kom löngum vestur í sumarfríum og vann við hótelið í Bjarkalundi í Reykhólasveit. Amma og afi Jóns Gnarr og foreldrar Kristins voru hjónin Guðrún Guðmundsdóttir og Óskar Arinbjörnsson, búendur á Eyri. Til þess er tekið í héraðinu hversu sterkan svip Jón Gnarr beri úr þessari ætt. Óskar afi hans var mikill talsmaður framfara í landbúnaði og var í forystusveit Búnaðarfélags Gufudalshrepps. Hann var um tíma farkennari í Gufudalssveit. Óskar drukknaði í Breiðafirði sumarið 1954.
Faðir Agnesar M. Sigurðardóttur biskups var Sigurður Kristjánsson frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, sem lengi var prestur og prófastur á Ísafirði. Bræður hans tveir bjuggu á Skerðingsstöðum alla sína búskapartíð, þeir Halldór (d. 2004) og Finnur (d. 2012). Amma og afi Agnesar biskups í föðurættina voru hjónin Agnes Jónsdóttir og Kristján Jónsson, búendur á Skerðingsstöðum.
Ekki nóg með að afi Ólafs Ragnars Grímssonar hafi verið fæddur á Kambi í Reykhólasveit. Þar fæddist líka og ólst upp afi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hins nýja forsætisráðherra. Afinn hét líka Sigmundur og var Jónsson, faðir Gunnlaugs M. Sigmundssonar fyrrv. þingmanns Vestfirðinga, föður Sigmundar Davíðs. Á Kambi bjuggu frá 1906 til 1946 foreldrar Sigmundar eldra, hjónin Jón Hjaltalín Brandsson og Sesselja Stefánsdóttir.
Karl Kristjánsson sem nú býr á Kambi segir að Jón Brandsson hafi verið framfarasinnaður maður. Árið 1935 byggði hann á Kambi steinhús sem taldist vönduð bygging á þeirra tíma mælikvarða. Það er í frásögur fært, að steinsteyptir útveggirnir voru tvöfaldir með reiðingstorfi á milli til einangrunar. Jón var meðal þeirra fyrstu í sveitinni til að leiða rennandi vatn í bæinn. Hann átti sæti í hreppsnefnd, var atorkusamur í Búnaðarfélagi Reykhólahrepps og framámaður í jarðrækt.
Úr því að ferð fellur, eins og sagt er, skal hér getið eins manns enn, þó að hann sé löngu horfinn á vit feðra sinna og mæðra. Það er Sveinn Björnsson, fyrsti forseti íslenska lýðveldisins. Björn Jónsson faðir hans var bóndasonur frá Djúpadal í Gufudalssveit og var mjög lengi öflugasti og áhrifamesti blaðamaður landsins. Hann stofnaði blaðið Ísafold og var útgefandi þess og ritstjóri í meira en þriðjung aldar og skrifaði það að mestu leyti sjálfur. Undir ævilokin varð Björn annar Íslandsráðherrann, næstur á eftir Hannesi Hafstein. Framan af eða frá upphafi heimastjórnar 1904 og til 1917 var ráðherrann aðeins einn og hafði því alla málaflokka á sinni hendi.
Myndir nr. 2 og 3 eru úr ritinu Þar minnast fjöll og firðir, ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum, sem út kom á liðnum vetri. Á mynd nr. 2 eru afi og amma Jóns Gnarr, Guðrún Guðmundsdóttir og Óskar Arinbjörnsson á Eyri í Kollafirði. Varðandi mynd nr. 3 segir í ritinu:
- Árið 1945 var aðeins orðið bílfært vestur að Kollabúðum. Norður-Breiðfirðingar ætluðu því að taka á móti Sveini Björnssyni í Króksfjarðarnesi, en það vildi forseti ekki og mælti með Djúpadal [þaðan sem faðir hans var]. Niðurstaðan varð sú að ekið var að Kollabúðum, en þaðan fór forseti, fylgdarlið hans og móttökunefndin á hestum að Djúpadal.
- Á myndinni situr forseti við borðsendann, vinstra megin við hann eru synir hans tveir, Henrik og væntanlega Ólafur og við hlið hans situr Andrés Ólafsson hreppstjóri. Hægra megin við forseta situr Þórey Jónsdóttir á Kleifastöðum og börn hennar, Svandís og Jón. Óskar Arinbjörnsson á Eyri ávarpar forseta.
*) Hér skal lítillega gerð grein fyrir hugtökunum Reykhólahreppur, Reykhólasveit og Gufudalssveit. Reykhólahreppur í núverandi mynd varð til árið 1987 við sameiningu allra gömlu hreppanna fimm í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps (Eyjahrepps). Reykhólasveit er enn í dag fullgilt heiti á hluta Reykhólahrepps og á sama hátt er talað um Gufudalssveit o.s.frv. Hins vegar er Gufudalssveit ekki í Reykhólasveit þó að núna sé hún í Reykhólahreppi. Það sama gildir auðvitað um Geiradal og Múlasveit í Reykhólahreppi, sem vissulega eru ekki í Reykhólasveit, ekki frekar en Flatey á Breiðafirði, sem er í Reykhólahreppi eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja.
Leiðréttingar, athugasemdir og ábendingar óskast hér fyrir neðan.
- Samantekt: Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður Reykhólavefjarins síðustu árin.
Gunnlaugur M. Sigmundsson, mnudagur 27 ma kl: 21:45
Það var gaman að lesa þessa grein, vissi ekki að afi Ólafs Ragnars forseta hafi fæðst á Kambi. Til gamans og fróðleiks má svo bæta því við að faðir minn Sigmundur Jónsson frá Kambi var mikill vinur Finns Kristjánssonar á Skerðingsstöðum sem var föðurbróðir Agnesar biskups Íslands. Sonur Agnesar biskups er Dr. Sigurður Hannesson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri hjá MP banka, Dr. Sigurður Hannesson er einn nánasti vinur, efnahagsráðgjafi og samstarfsmaður Sigmundar Davíðs en þeir kynntust fyrst við doktorsnám í Oxford.
Sigurður Hannesson er giftur Gunnhildi Ástu Guðmundsdóttur en langafi hennar var Sigmundur Brandsson á Kollabúðum bróðir Jóns Hjaltalín Brandssonar langafa Sigmundar Davíðs.
Systir þeirra Jóns Hjaltalín á Kambi og Sigmundar Brandssonar Kollabúðum var Danelína Brandsdóttir langamma Þórunnar Sveinbjörnsdóttur fyrrum alþingismanns og ráðherra og nú aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar.