Tenglar

27. maí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Forseti, borgarstjóri, biskup - og Sigmundur Davíð

1 af 3

Svo skemmtilega vill til, að helsta fremdarfólk landsins um þessar mundir á rætur í Reykhólahreppi*) og hvergi djúpt eftir að grafa. Þar voru fyrir forseti Íslands, borgarstjórinn í Reykjavík og biskupinn yfir Íslandi (talið eftir starfsaldri í embætti og sama gildir um röðina á myndinni sem hér fylgir) og nú hefur forsætisráðherra bæst í hópinn. Hér verður lítillega gerð grein fyrir þessum rótum.

 

Afi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, Ólafur Ragnar Hjartarson, sem tók upp ættarnafnið Hjartar, fæddist á Kambi í Reykhólasveit þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma áður en þau fluttust til Þingeyrar. Faðir Ólafs Ragnars Hjartar og langafi forsetans, Hjörtur Bjarnason, var frá Hamarlandi í Reykhólasveit.

 

Faðir Jóns Gnarr borgarstjóra var Kristinn Óskarsson frá Eyri í Kollafirði í Gufudalssveit. Kristinn var lögreglumaður syðra en kom löngum vestur í sumarfríum og vann við hótelið í Bjarkalundi í Reykhólasveit. Amma og afi Jóns Gnarr og foreldrar Kristins voru hjónin Guðrún Guðmundsdóttir og Óskar Arinbjörnsson, búendur á Eyri. Til þess er tekið í héraðinu hversu sterkan svip Jón Gnarr beri úr þessari ætt. Óskar afi hans var mikill talsmaður framfara í landbúnaði og var í forystusveit Búnaðarfélags Gufudalshrepps. Hann var um tíma farkennari í Gufudalssveit. Óskar drukknaði í Breiðafirði sumarið 1954.

 

Faðir Agnesar M. Sigurðardóttur biskups var Sigurður Kristjánsson frá Skerðingsstöðum í Reykhólasveit, sem lengi var prestur og prófastur á Ísafirði. Bræður hans tveir bjuggu á Skerðingsstöðum alla sína búskapartíð, þeir Halldór (d. 2004) og Finnur (d. 2012). Amma og afi Agnesar biskups í föðurættina voru hjónin Agnes Jónsdóttir og Kristján Jónsson, búendur á Skerðingsstöðum.

 

Ekki nóg með að afi Ólafs Ragnars Grímssonar hafi verið fæddur á Kambi í Reykhólasveit. Þar fæddist líka og ólst upp afi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hins nýja forsætisráðherra. Afinn hét líka Sigmundur og var Jónsson, faðir Gunnlaugs M. Sigmundssonar fyrrv. þingmanns Vestfirðinga, föður Sigmundar Davíðs. Á Kambi bjuggu frá 1906 til 1946 foreldrar Sigmundar eldra, hjónin Jón Hjaltalín Brandsson og Sesselja Stefánsdóttir.

 

Karl Kristjánsson sem nú býr á Kambi segir að Jón Brandsson hafi verið framfarasinnaður maður. Árið 1935 byggði hann á Kambi steinhús sem taldist vönduð bygging á þeirra tíma mælikvarða. Það er í frásögur fært, að steinsteyptir útveggirnir voru tvöfaldir með reiðingstorfi á milli til einangrunar. Jón var meðal þeirra fyrstu í sveitinni til að leiða rennandi vatn í bæinn. Hann átti sæti í hreppsnefnd, var atorkusamur í Búnaðarfélagi Reykhólahrepps og framámaður í jarðrækt.

 

Úr því að ferð fellur, eins og sagt er, skal hér getið eins manns enn, þó að hann sé löngu horfinn á vit feðra sinna og mæðra. Það er Sveinn Björnsson, fyrsti forseti íslenska lýðveldisins. Björn Jónsson faðir hans var bóndasonur frá Djúpadal í Gufudalssveit og var mjög lengi öflugasti og áhrifamesti blaðamaður landsins. Hann stofnaði blaðið Ísafold og var útgefandi þess og ritstjóri í meira en þriðjung aldar og skrifaði það að mestu leyti sjálfur. Undir ævilokin varð Björn annar Íslandsráðherrann, næstur á eftir Hannesi Hafstein. Framan af eða frá upphafi heimastjórnar 1904 og til 1917 var ráðherrann aðeins einn og hafði því alla málaflokka á sinni hendi.

 

Myndir nr. 2 og 3 eru úr ritinu Þar minnast fjöll og firðir, ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum, sem út kom á liðnum vetri. Á mynd nr. 2 eru afi og amma Jóns Gnarr, Guðrún Guðmundsdóttir og Óskar Arinbjörnsson á Eyri í Kollafirði. Varðandi mynd nr. 3 segir í ritinu:

  • Árið 1945 var aðeins orðið bílfært vestur að Kollabúðum. Norður-Breiðfirðingar ætluðu því að taka á móti Sveini Björnssyni í Króksfjarðarnesi, en það vildi forseti ekki og mælti með Djúpadal [þaðan sem faðir hans var]. Niðurstaðan varð sú að ekið var að Kollabúðum, en þaðan fór forseti, fylgdarlið hans og móttökunefndin á hestum að Djúpadal.
  • Á myndinni situr forseti við borðsendann, vinstra megin við hann eru synir hans tveir, Henrik og væntanlega Ólafur og við hlið hans situr Andrés Ólafsson hreppstjóri. Hægra megin við forseta situr Þórey Jónsdóttir á Kleifastöðum og börn hennar, Svandís og Jón. Óskar Arinbjörnsson á Eyri ávarpar forseta.

 

*) Hér skal lítillega gerð grein fyrir hugtökunum Reykhólahreppur, Reykhólasveit og Gufudalssveit. Reykhólahreppur í núverandi mynd varð til árið 1987 við sameiningu allra gömlu hreppanna fimm í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. Geiradalshrepps, Reykhólahrepps, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps (Eyjahrepps). Reykhólasveit er enn í dag fullgilt heiti á hluta Reykhólahrepps og á sama hátt er talað um Gufudalssveit o.s.frv. Hins vegar er Gufudalssveit ekki í Reykhólasveit þó að núna sé hún í Reykhólahreppi. Það sama gildir auðvitað um Geiradal og Múlasveit í Reykhólahreppi, sem vissulega eru ekki í Reykhólasveit, ekki frekar en Flatey á Breiðafirði, sem er í Reykhólahreppi eins og mestur hluti Breiðafjarðareyja.

 

Leiðréttingar, athugasemdir og ábendingar óskast hér fyrir neðan.

 

- Samantekt: Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður Reykhólavefjarins síðustu árin.

 

Athugasemdir

Gunnlaugur M. Sigmundsson, mnudagur 27 ma kl: 21:45

Það var gaman að lesa þessa grein, vissi ekki að afi Ólafs Ragnars forseta hafi fæðst á Kambi. Til gamans og fróðleiks má svo bæta því við að faðir minn Sigmundur Jónsson frá Kambi var mikill vinur Finns Kristjánssonar á Skerðingsstöðum sem var föðurbróðir Agnesar biskups Íslands. Sonur Agnesar biskups er Dr. Sigurður Hannesson stærðfræðingur og framkvæmdastjóri hjá MP banka, Dr. Sigurður Hannesson er einn nánasti vinur, efnahagsráðgjafi og samstarfsmaður Sigmundar Davíðs en þeir kynntust fyrst við doktorsnám í Oxford.
Sigurður Hannesson er giftur Gunnhildi Ástu Guðmundsdóttur en langafi hennar var Sigmundur Brandsson á Kollabúðum bróðir Jóns Hjaltalín Brandssonar langafa Sigmundar Davíðs.
Systir þeirra Jóns Hjaltalín á Kambi og Sigmundar Brandssonar Kollabúðum var Danelína Brandsdóttir langamma Þórunnar Sveinbjörnsdóttur fyrrum alþingismanns og ráðherra og nú aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar.

Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, mnudagur 27 ma kl: 21:48

Er nema von að ég sé stoltur af að hafa verið sveitarstjóri þessa ágæta hrepps í fjögur ár (2002-2006).

Heiðar G Jóhannesson, mnudagur 27 ma kl: 22:06

Gaman að þessu .
Smá viðbót varðandi pabbba og afa Jóns Gnarr, Óskar Arinbjörnsson afi hans sem bjó lengst á Eyri var frá Hyrningsstöðum og pabbi Jóns Gnarr, Kristinn Óskarsson var fæddur á Hyningsstöðum

Orri Ólafur Magnússon, mnudagur 27 ma kl: 23:48

Sæll Hlynur,
augu heimsins beinast að Reykhólahreppi - Reykhælingar ( ? ) standa í mikilli þakkarskuld við þig .
Ef þú skyldir eiga leið í höfuðststaðinn, láttu fyrir enga muni undir höfuð leggjast að hafa við mig samband. Gaman væri, ef við gætum mælt okkur mót yfir kaffibolla + tertusneið ( optional ) í bænum . Hvernig líst þér á þa hugmynd ?
Gangi þér vel + góðar kveðjur Orri

Þrymur Sveinsson, mnudagur 27 ma kl: 23:49

Þakka Gunnlaugi Sigmundssyni fyrir prýðilegt og fróðlegt innlegg. Mig langar að bæta því við að Sólveig Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir dóttir Danielínu er móðir Kristjáns Loftssonar forstjóra Hvals hf.

Geir Guðmundsson, rijudagur 28 ma kl: 00:29

Katrín Jakobsdóttir formaður VG og fyrrverandi menntamálaráðherra á líka ættir að rekja til Reykhólahrepps, en langalangaafi hennar, Guðmundur Einarsson (http://www.reykholar.is/frettir/Gudmundur_Einarsson_ur_Skaleyjum/) alþingismaður og fulltrúi á þjóðfundinum 1851 var úr Skáleyjum. Kona Guðmundar, Katrín Sívertsen, var ættuð úr Flatey, en hún var dóttir Ólafs Sívertsen (http://www.reykholar.is/frettir/Olafur_Sivertsen_i_Flatey/) og Jóhönnu Friðriku Kúld Eyjólfsdóttur sem stofnuðu Framfarafélagið á sínum tíma.

Ef farið er vestar eftir Barðaströndinni, þá var einn forfaðir Sigmundar Daviðs, hann Guðbrandur Sigurðsson (f. 1735 d. 1779), prestur á Bjánslæk, en undan honum eru komnir m.a. (forsætis)ráðherrarnir Hannes Hafstein, Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen og Davíð Oddson.

Múlnesingur, rijudagur 28 ma kl: 08:37

"Ef farið er vestar eftir Barðaströndinni...."

Líkar ekki þetta orðalag. Reyhólahreppur, hvorki hinn forni né nýi, er á Barðaströnd. Því færi betur á að segja: "Ef farið er úr Reykhólahreppi vestur á Barðaströnd..."

Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, rijudagur 28 ma kl: 09:01

Ég ræddi einu sinni í veislu í Höfða tengsl borgarstjórans við Reykhólahrepp við hann sjálfan. Og þá nefndi hann einmitt sérstaklega Hyrningsstaði í Reykhólasveit.

Kristjón Sigurðsson, rijudagur 28 ma kl: 09:23

Mér finnst þessi grein verulega áhugaverð eins og flest efni á Reykhólavefnum. Sama á við um athugasemdirnar.
Hlynur Þór Magnússon er ,,maðurinn á bak við vefinn." Bestu þakkir fyrir frábært starf!

Geir Guðmundsson, rijudagur 28 ma kl: 13:27

Biðst velvirðingar á vanþekkingu minni og að flokka Reykhólahrepp til Barðastrandar.
Það sem ruglaði mig var að talað er um Vestur- og Austur-Barðastrandasýslu, en ég man það núna að hafa áður verið bent á að Reykhólahreppur er ekki á Barðaströnd.
Tilheyrir Brjánslækur annars ekki Barðaströnd?

Hlynur Þór Magnússon, umsjónarmaður vefjarins, rijudagur 28 ma kl: 13:53

Jú, ágæti Geir, Brjánslækur er á Barðaströnd. Þér og öðrum til afbötunar í þessu efni vil ég nefna, að áratugum saman hefur tíðkast í fjölmiðlum að „útvíkka“ Barðaströndina fram úr öllu hófi. Barðaströndin er sveitin frá Vatnsfirði (þar sem Flókalundur er) og vestur að Sigluneshlíðum. Gróf núna upp sex ára gamla bloggfærslu þar sem ég sagði m.a.:

„Leyfi mér að minna á, að Reykhólar eru ekki á Barðaströnd, þó svo að fjölmiðlar ali á því hvenær sem héðan eru fluttar einhverjar fréttir. Barðaströndin er ekki einu sinni í Reykhólahreppi, þó að hann sé afar víðlendur. Héðan frá Reykhólum er um 140 km akstur þangað til komið er út á Barðaströnd. Annars er Barðaströndin yfirleitt fremur stór í fréttum fjölmiðla. Þannig var sagt frá því fyrir nokkrum dögum, að týnda kajakfólkið hefði fundist á Rauðasandi á Barðaströnd. Það er líka nýmæli í landafræðinni.“

Kærar þakkir fyrir innleggið þitt, Geir. Og aðrir sem hér hafa skrifað fá vissulega líka kærar þakkir!

Ættaður úr Gufudalssveit, rijudagur 28 ma kl: 19:32

Það má bæta þeim frændum Gunnari Svavarssyni (syni Svars Gests útvarpsmanni) fv alþingismanni og formanni fjárlaganefndar og Degi B. Eggertssyni borgarfulltrúa í Reykjavík við þennan lista. Steingrímur Stefánsson afi Gunnars og langafi Dags var fæddur á Hofstöðum í Gufufirði, fæddur 1895, látinn 1973. Pabbi Steingríms var Stefán Gíslason fæddur á Múla Gufudalssveit og síðar bóndi á Galtará og Kleifastöðum í sömu sveit.

Guðmundur Jóelsson, rijudagur 28 ma kl: 23:57

Aðeins meira um hina eiginlegu Barðaströnd: Tengdafaðir minn heitinn, Gunnar Þ. Þorsteinsson frá Litluhlíð á Barðaströnd, sagði mér frá því á sínum tíma, að bærinn Auðshaugur á Hjarðarnesi væri fyrsti bær á Barðaströnd að austanverðu talið. Kannast einhver við þá skilgreiningu?

Múlnesingur, mivikudagur 29 ma kl: 09:39

Auðshuagur er að mínu viti ekki á Barðaströnd heldur á Hjarðarnesi. Þá er miðað við að Barðaströnd byrji í Vatnsfirði, en gamli Barðastrandarhreppur náði lengra austur. Þetta er spurning um málvenju.

Mér finnst óréttlátt að kenna fjölmiðlamönnum okkar tíma um að nokkur óreiða er á nafngiftum á þessu svæði norðan Breiðafjarðar. Þarna eru nú víða eyðibyggðir á nesjum og í smáfjörðum og þær hafa aldrei haft eitt sameiniginlegt nafn og ekki íbúarnir heldur.

Þó var reynt að koma einu nafni yfir alla íbúa Barðastrandarsýslna á liðinni öld. Það nafn var Barðstrendingar; sbr. Barðstrendingabók og Barðstrendingafélagið, sem enn ku vera um Barðstrendinga og fyrir Barðstendinga en að mestu stýrt útfrá Mýratungu í Reyhólasveit en Patreksfirðingar fjölmennir í félaginu auk Rauðsendinga.

Ekki að furða þótt fólk í fjarlægum héruðum ruglist á þessu vingli í einkum brottfluttum heimamönnum.

Karlotta Jóna Finnsdóttir, mivikudagur 29 ma kl: 09:49

Aðeins meiri ættfræði: Kristján Jónsson afi Agnesar biskups og Björn pabbi Sveins Björnssonar forseta voru þremenningar.

Einar Örn Thorlacius fyrrverandi sveitarstjóri Reykhólahrepps, mivikudagur 29 ma kl: 10:31

Það eina sem fjölmiðlamenn þurfa að muna er að norðurströnd Breiðafjarðar hefur ekkert eitt nafn. Þessi gríðarlega langa strönd heitir ekki Barðaströnd!

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30