Tenglar

14. mars 2016 |

Forseti, landnámshæna, ráðskona og draugur

Ætli annað hvort þeirra sé forsetinn?
Ætli annað hvort þeirra sé forsetinn?
1 af 3

Leikfélag Hólmavíkur frumsýnir Ballið á Bessastöðum núna á föstudag, 18. mars. Þetta er fjölskyldusýning og hluti af Barnamenningarhátíð Vestfjarða, sem stendur yfir á Hólmavík um þessar mundir. Verkið er unnið upp úr samnefndri bók Gerðar Kristnýjar en Bragi Valdimar Skúlason samdi tónlistina. Leikstjóri er Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir. Þetta er lífleg leiksýning og ávísun á góða skemmtun fyrir fólk á öllum aldri.

 

Leikaravalið er ekki af verri endanum, því að auk leikfélagsfólks mun hópur grunnskólanemenda stíga á svið. Hefð er fyrir því að Grunn- og tónskólinn á Hólmavík og Leikfélag Hólmavíkur leiði saman krafta sína annað hvert ár og setji á svið stórt verk í sameiningu.

 

„Samvinnan er býsna dýrmæt, enda er leikhúshefð afar rík á Hólmavík þar sem ungt fólk lærir snemma að stíga á svið og koma fram, sem aftur reynist gott veganesti inn í framtíðina og stuðlar að öruggri endurnýjun hjá okkar öfluga áhugaleikfélagi,“ segir í tilkynningu frá Eiríki Valdimarssyni, ritara Leikfélags Hólmavíkur.

 

Í ljósi þess að forsetakosningar verða hérlendis í sumar fannst félaginu tilvalið að velja þessa skemmtilegu fjölskyldusýningu og um leið vekja athygli almennings, ekki hvað síst ungu kynslóðarinnar, á forsetaembættinu og tilvist þess. Ljóst er að þessu sýning hefur náð eyrum nokkurra frambjóðenda, sem hafa meira að segja sýnt því áhuga að mæta, kannski til að æfa sig fyrir komandi embættisverk!

 

Þó ber að taka fram, að sá alvarleiki sem býr í forsetaembættinu sjálfu er víðs fjarri þessari sýningu, enda er um að ræða hressandi verk fyrir alla fjölskylduna, þar sem fram koma m.a. forseti, landnámshæna, ritarar, ráðskona, prinsessa, kýr og draugur.

 

Sýnt verður í Félagsheimilinu á Hólmavík og eru eftirfarandi sýningar á dagskrá:

Frumsýning föstudaginn 18. mars kl. 20.

2. sýning sunnudaginn 20. mars kl. 14.

3. sýning þriðjudaginn 22. mars kl. 18.

4. sýning páskadag 27. mars kl. 20.

5. sýning fimmtudaginn 31. mars kl. 18.

 

Miðapantanir hjá Dagbjörtu í síma 8240756. Miðinn kostar 2.500 kr. fyrir 14 ára og eldri en 1.500 kr. fyrir 4-13 ára.

 

Við hlökkum til að sjá ykkur öll!

Leikfélag Hólmavíkur.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31