23. júní 2008 |
Forskot á Jónsmessubrennuna í Bjarkalundi
Kvöldið fyrir Jónsmessuhátíðina í Bjarkalundi, þar sem brenna er fastur liður, kviknaði í gróðri skammt frá hótelinu. Laust fyrir klukkan átta á föstudagskvöldið urðu starfsmenn varir við reyk og þegar litið var ofar í hlíðina sást kjarreldur utan við Sellækinn. Strax var hringt í 112 og rokið á staðinn og hafist handa að slökkva eldinn með skóflur að vopni. Eldurinn var kæfður og reykurinn var að mestu horfinn þegar Slökkvilið Reykhólahrepps kom á staðinn.
Slökkviliðsmenn bleyttu síðan rækilega í gróðri og jarðvegi þar sem eldurinn var þannig að tryggt væri að ekki leyndist þar glóð.
Myndirnar sendi Þórarinn Ólafsson.