Fóru í Borgarleikhúsið tvo daga í röð
Nemendurnir í leikskólanum Hólabæ á Reykhólum og Reykhólaskóla brugðu sér um helgina í menningarferð suður á bóginn ásamt ýmsum eldri. Á laugardagsmorgun fóru yngri krakkarnir í Þjóðminjasafnið og síðan eftir hádegi á Galdrakarlinn í Oz í Borgarleikhúsinu áður en haldið var í pítsuveislu á Rizzo. Þar bættust í hópinn krakkarnir í 8.-10. bekk, sem verið höfðu á smiðjuhelgi á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði á föstudag og fram á laugardag. Þarna var hópurinn orðinn áttatíu manns.
Í gærmorgun var byrjað á sundspretti í Kópavogslaug og síðan farið aftur í Borgarleikhúsið, að þessu sinni til að sjá Góa og baunagrasið. Loks var farið á skauta í Egilshöll.
Svipmyndirnar úr ferðinni eru frá Gústaf Jökli Ólafssyni á Reykhólum (eru hér ekki í réttri tímaröð). Á einni þeirra eru tvíburabræðurnir Kristófer Hans og Mikael Davíð, sem áttu ellefu ára afmæli á laugardaginn.