Fossarnir í Reykjanesfjalli hættu við lendingu
Reykhólamælirinn sýndi vindinn hvassastan milli klukkan sjö og tíu í gærkvöldi. Meðalvindhraði var þá um og rétt rúmlega 20 metrar á sekúndu og mestu vindhviður um 30 metrar, sú harðasta 32,5 metrar. Á Mikladal við Patreksfjörð mældist snarpasta hviðan hins vegar 49 metrar á sekúndu um níuleytið. Á Steingrímsfjarðarheiði fór meðalvindhraðinn í 29 metra á sekúndu og mesta hviða þar mældist 36 metrar á sekúndu.
En aftur að fossunum í suðurhlíðum Reykjanesfjalls. Meðfylgjandi mynd tók Ólafur Haukur Gíslason af Grundarfossi rétt ofan við Reykhóla. Og Lóa á Miðjanesi sagði á fésbók um Miðjanesána: Vatnið í fossinum fýkur allt upp á fjall - veit ekki hvað verður um það þar. Pálína Straumberg Pálsdóttir frá Múla í Þorskafirði skaut inn athugasemd hjá Lóu: Það hlýtur að koma niður á endanum.