Tenglar

18. desember 2015 |

Fræðigrein um breytingar á fjölda æðarhreiðra

Æðarkolla á hreiðri í manngerðu skjóli. Ljósm. Ása Björg Stefánsdóttir 2013.
Æðarkolla á hreiðri í manngerðu skjóli. Ljósm. Ása Björg Stefánsdóttir 2013.

Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, tímarits Hins íslenska náttúrufræðifélags, er mjög ítarleg ritrýnd fræðigrein um breytingar á fjölda æðarhreiðra á Íslandi. Höfundar eru líffræðingarnir Jón Einar Jónsson, Þórður Örn Kristjánsson, Árni Ásgeirsson og Tómas G. Gunnarsson. Safnað var saman árlegum hreiðurtalningum æðarbænda til að rannsaka breytingar á fjölda æðarhreiðra í 40 æðarvörpum. Lengsta gagnaröðin náði 101 ár aftur í tímann en þær stystu tóku til sex ára. Rannsakaðar voru breytingar eftir tímabilum og landshlutum.

 

Undirbúningur verkefnisins hófst árið 2006 og hefur vinnan einkum beinst að tengslum æðarstofnsins við veðurfar og loftslagsbreytingar. Gögnum var safnað í góðri samvinnu við æðarbændur frá upphafi. Verkefnið hófst við Breiðafjörð en árið 2012 höfðu safnast gögn úr 40 vörpum víðs vegar af landinu.

 

Fram kemur að á árunum 1980-1991 fjölgaði hreiðrum samfellt um allt land og stóð sá uppgangur sums staðar allt til 1998. Á heildina litið virðist æðarhreiðrum hafa fækkað frá síðustu aldamótum og þar með hefur fjarað nokkuð undan fjölguninni þar á undan. Vestureyjar á Breiðafirði hafa hins vegar þá sérstöðu að þar var fjöldi hreiðra tiltölulega stöðugur þessi ár. Fjöldi hreiðra í Vestureyjum var 42% meiri árið 2007 en 1977, sem virðist hafa verið eitt síðasta árið í löngum stöðugleikakafla víðast hvar. Þrátt fyrir þekkt áföll í einstaka æðarvarpi bendir fátt til verulegrar fækkunar hreiðra 2008-2013.

 

Í almennum inngangi að sjálfri ritgerðinni segir m.a.:

 

Rík hefð er fyrir því að rannsaka algengar fuglategundir til að efla skilning manna á náttúrunni og svara grunnspurningum í vistfræði. Fuglar eru auk þess mjög sýnilegir ávitar á umhverfisbreytingar. Stofnrannsóknir koma líka að gagni við verndun tegunda, bæði til nýtingar og náttúruverndar. Stök talning ár hvert er oft vel nothæfur mælikvarði á stofnbreytingar fuglastofna ef aðferðir eru svipaðar í tíma og rúmi. Langtímagögn hafa ýmsa kosti. Stofnþættir langlífra tegunda verða t.d. vart skýrðir með öðru móti og í þeim má greina mikilvægi sjaldgæfra atburða innan stofnsins.

 

Til að fuglatalningar gefi heildarmynd þarf net talningamanna. Þar sameinast oft vísindamenn og áhugamenn og kemur það sér einkar vel í mannaflsfrekum talningum og þegar talið er á stórum svæðum. Gott dæmi er fuglatalning í Finnlandi þar sem talningamenn hafa á hverju ári frá 1975 talið 90 tegundir varpfugla á 50 stöðum um allt landið. Með samræmdum aðgerðum fást langtímagögn sem sýna þróun stofnstærðar og jafnframt upplýsingar sem nýta má til nýrra og fjölbreyttari rannsókna. Á Íslandi eru dæmi um slíkt samstarf vetrartalning fugla, sem á sér fyrirmynd í jólatalningum erlendis, og árleg vöktun rjúpnastofnsins þar sem taldir eru karrar á óðali á vorin.

 

Æðarbændur hafa margir skráð fjölda hreiðra æðarfugls (Somateria mollissima) á landi sínu um langt skeið, oftar en ekki ár hvert. Fyrir vikið eru til talningaraðir af fjölda hreiðra í vörpum, sumar meira en 30 ára langar.

 

Æðardúntekju stunda rúmlega 400 bændur hérlendis. Meðaltal útflutningsverðmætis æðardúns var um 394 milljónir kr. 2008-2013 og var árlegur heildarútflutningur að meðaltali 2,9 tonn af hreinsuðum dún. Tvö síðustu ár þessa tímabils voru í sérflokki. Árið 2012 voru flutt út 3,1 tonn og var heildarútflutningsverðmæti æðardúns tæpar 515 milljónir kr. það ár. Árið 2013 var verðmætið komið upp í tæpar 613 milljónir kr. fyrir 3,2 tonn. Æðarfugl er því án efa mesti nytjafugl landsins og er m.a. friðaður fyrir skotveiði vegna dúntekjunnar.

 

Æðarfugl hefur notið einhvers konar verndar á Íslandi frá þjóðveldisöld og verið alfriðaður frá 1849. Bannað er að skjóta æðarfugl, leggja net nærri friðlýstu æðarvarpi án leyfis varpeiganda eða trufla varp á annan hátt. Æðarbændur mega þó tína dún og egg svo framarlega sem skilin eru eftir fjögur egg í hreiðri.

 

Stofnstærð æðarfugls á Íslandi hefur verið metin á tvennan hátt. Annars vegar er miðað við dúntekju: 250 þúsund pör og 900 þúsund einstaklingar að haustlagi 1990. Hins vegar hefur verið metinn fjöldi fugla með talningu úr lofti umhverfis landið að vetri til: 850 þúsund einstaklingar veturinn 2008. Ekki er til mat á því hversu stór hluti íslenska æðarstofnsins verpur innan eða utan nýttra æðarvarpa.

 

Endurheimtur æðarfugla sem merktir hafa verið með dægurritum (e. geolocators) sýna að hingað koma til vetursetu æðarfuglar frá Austur-Grænlandi og Svalbarða. Ekki er vitað hversu hátt hlutfall fugla af erlendum uppruna er í íslenska vetrarstofninum. Sé tekið mið af upplýsingum um aðra æðarstofna má skjóta á að íslenski æðarstofninn sé á milli 8% og 17% af heimsstofninum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31