Framkvæmdir ganga vel
Eins og sagt var frá fyrir skömmu, var gripið tækifærið sem gafst til viðhalds og viðgerða í Grettislaug og skólaeldhúsinu þegar lokað var þar vegna samkomubanns. Framkvæmdir hafa gengið vel, þó veður hafi aðeins tafið iðnaðarmenn sem hafa komið til að vinna við þetta.
Sett var epoxy-efni á öll gólf og einnig á veggi í sturtuklefum og snyrtingum í sundlaugarhúsinu. Nánast allar pípu- og raflagnir eru endurnýjaðar á báðum stöðum.
Búið er að saga nýjar dyr úr eldhúsinu fram í matsal í skólamötuneytinu, en þar var lúga sem ekki nýttist vel. Í eldhúsið koma svo nýjar stálinnréttingar.
Allar innréttingar og snyrtingar í búningsklefunum í sundlauginni eru endurnýjaðar. Þar verða læstir skápar o.fl.
Sundlaugin var byggð árið 1946 og tekin í notkun ári síðar.
Árið 1990 var ráðist í nokkuð umfangsmiklar endurbætur á sundlauginni, settir niður heitir pottar og gerð búningsaðstaða úti, svo dæmi sé tekið.
Sumardaginn 1. 1991 var Grettislaug endurvígð og var fjallað um það í fréttapistli í Mogganum frá Sveini á Miðhúsum.
Starfsemi sundlaugarinnar og skólans hefur verið samofin frá því laugin var byggð. Sundlaugarhúsið var nýtt sem skólahúsnæði þar til barnaskólinn, þar sem nú er leikskólinn Hólabær, var byggður árið 1958. Á vorin voru haldin sundnámskeið fyrir börn og unglinga úr öðrum hlutum sýslunnar þar sem ekki eru sundlaugar.
Til gamans er klausa um unglingaskólann 1952 hér.
Sá hluti skólans sem hýsir eldhúsið sem nú gengur í endurnýjun lífdaga var byggður 1973.
Myndirnar tók Guðmundur Ingiberg Arnarsson, nema úrklippuna.