19. apríl 2016 |
Framleiðsla á kjöti af nautgripum stóreykst
Samkvæmt nýju yfirliti frá Búnaðarstofu er framleiðsla nautgripakjöts 3.820 tonn undanfarna 12 mánuði. Það er aukning um 9,1% frá árinu á undan. Sala nautgripakjöts á sama tímabili er 3.822 tonn. Framleiðsla á ungnautakjöti undanfarið ár er 2.232 tonn, aukning um 6,6%, framleiðsla á kýrkjöti er 1.526 tonn, aukning um 11,5%. Framleiðsla á ung- og alikálfum er 64 tonn, sem er 68% aukning frá fyrra ári.
Ef litið er til þróunar á framleiðslunni það sem af er þessu ári, janúar-mars, þá er framleiðsla ungnautakjöts 612 tonn, sem er aukning um 22%. Framleiðsla kýrkjöts á sama tímabili er 470 tonn, sem er 27% aukning frá sama tíma í fyrra. Heildarframleiðsla nautgripakjöts á fyrsta ársfjórðungi var 1.099 tonn og salan 1.103 tonn.