Tenglar

9. janúar 2009 |

Framtíðarland fuglaskoðara er í Reykhólahreppi

Dílaskarfar á skeri austan við Skáleyjar á Breiðafirði. Mynd: Sigurður Ægisson.
Dílaskarfar á skeri austan við Skáleyjar á Breiðafirði. Mynd: Sigurður Ægisson.

Á annað hundrað manns mættu á fund um fuglaskoðunarferðir til Íslands, sem haldinn var á Hótel Sögu í dag. Mikill áhugi er á því að samræma aðgerðir fuglaskoðunarfyrirtækja og var m.a. settur á fót hópur til undirbúnings að stofnun samtaka fyrirtækja í fuglaskoðun. Breski ráðgjafinn Connie Lovel hélt fyrirlestur á fundinum, en hún hefur áður unnið með fyrirtækjum í fuglaskoðun á Falklandseyjum. Í máli hennar kom fram, að í Bandaríkjunum einum eru um 70 milljónir manna sem fara gagngert í ferðir til að skoða fuglalíf. Markhópurinn er því stór og ætla íslensk fyrirtæki sér stóra hluti á næstu árum.

 

Þetta kemur fram á vefnum mbl.is í dag. Meðal þeirra sem blogga við þá frétt er bloggarinn Dvergur nr. 3 en að baki því nafni leynist Jón Jónsson á Kirkjubóli í Steingrímsfirði. Hann segir þar meðal annars:

 

„Við hér á gistihúsinu á Kirkjubóli á Ströndum höfum verið að vinna að litlu og skemmtilegu æðarkolluverkefni sem snýst um að gera dálítið æðarvarp sem er hér í Orrustutanga aðgengilegt fyrir ferðafólk. Mest erum við að þessu okkur til gamans, það eru svo sem engar sérstakar tekjuleiðir í þessu verkefni ennþá."

 

Því er við þetta að bæta, að Reykhólahreppur við Breiðafjörð hefur að geyma eitthvert ríkulegasta fuglalíf landsins og fjölbreytni tegundanna mun vera meiri hér en annars staðar þekkist. Á hverju ári koma hingað hópar af erlendu fuglaskoðunarfólki og njóta þá ekki síst leiðsagnar og liðsinnis Björns Samúelssonar, sem er manna kunnugastur og fróðastur í þessum efnum hér um slóðir.

 

Myndina sem hér fylgir tók hinn sjálfmenntaði fuglafræðingur og fuglarithöfundur sr. Sigurður Ægisson á liðnu vori, þegar hann kom í fuglaskoðunarferð að Reykhólum og brá sér í bátsferð út um Breiðafjarðareyjar með Birni Samúelssyni.

 

Sjálfur konungur fuglanna, haförninn, á helstu óðul sín við Breiðafjörðinn og munu um tveir þriðju hlutar íslenska arnarstofnsins halda sig hér. Það er því nánast sjálfgefið að Arnarsetrið sem þau Bergsveinn og Signý Margrét á Gróustöðum eru að byggja upp skuli einmitt vera í Reykhólahreppi.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30