Frestur til kaupa á hlutum í Vesturferðum að renna út
Á síðasta fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps var samþykkt að kaupa 100 þúsund króna hlut í ferðaskrifstofunni Vesturferðum ehf. af Ferðamálasamtökum Vestfjarða. Samtökin keyptu í vor 70% hlut í Vesturferðum af Hótel Ísafirði og Flugfélagi Íslands. „Með kaupunum vildum við treysta undirstöður vestfirskrar ferðaþjónustu en það var alltaf stefnan að selja hluta af eigninni aftur“, sagði Sigurður Atlason á Hólmavík, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða.
Frestur til að kaupa hluti í Vesturferðum rennur út á miðnætti annað kvöld. Samtökin leggja á það ríka áherslu að þeir sem kaupa hluti í Vesturferðum eiga meiri möguleika en ella á því að hafa áhrif á þróun ferðamála á Vestfjörðum í framtíðinni og koma starfsemi sinni betur á framfæri.
„Ferðamálasamtök Vestfjarða líta á það sem eitt stærsta verkefni sitt að fá aðila í vestfirskri ferðaþjónustu til að sameina krafta sína og vinna sjálfir að því að koma sér á framfæri, en það verður ekki gert nema með almennri þátttöku. Það er því afar mikilvægt að samstaða náist. Því fleiri þátttakendur, því öflugri verður þessi gátt og því betur mun þetta ganga“, segir Sigurður Atlason í samtali við bb.is á Ísafirði.
„Við erum ekki að fara taka neitt af neinum heldur að auka framboð á vörum, auka sýnileika og veita tilvonandi kúnnum okkar tækifæri til að versla beint af okkur. Hérna getum ekki skýlt okkur á bak við lélegar samgöngur, við getum unnið þetta verkefni óháð hálsum og vegum. Það kemur þessari markaðssetningu ekkert við. Við eigum því öll, hvar sem er á kjálkanum, að geta sameinast um að fá stærri bita af köku ferðaþjónustunnar á Íslandi“, segir Sigurður Atlason.
Gústaf Gústafsson, forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða, tekur undir með Sigurði.
„Í mínum huga er þetta eitt mikilvægasta málefni vestfirskra ferðaþjóna í dag, að þeir horfi saman til framtíðar. Stór hluti af okkar vandamáli hefur verið sýnileiki vörunnar, sem sagt að það er erfitt að finna hana. Á Vestfjörðum eru fáar upplýsingamiðstöðvar og ferðaþjónar vita mismikið um vörur annarra ferðaþjóna. Sala á afþreyingu og gistinóttum er langt frá því að vera í réttu hlutfalli við fjölda ferðamanna sem koma á svæðið. Þetta bendir til að varan er falin og auka þarf sýnileika hennar. Við sem störfum í ferðaþjónustu verðum að gera það sjálf“, segir Gústaf.
Stjórn Ferðamálasamtakanna hvetur ferðaþjóna og aðra til að ákveða og staðfesta þátttöku í Vesturferðum fyrir miðnætti annað kvöld, sunnudagskvöld, með því að greiða inn á reikning samtakanna (0154-15-550230, kt. 541186-1319) þá upphæð sem hver og einn velur sér á bilinu 50 þúsund til 500 þúsund krónur.
Hlutaskírteini verða gefin út í næstu viku og send öllum hlutaðeigandi ásamt fundarboði á hluthafafund sem haldinn verði 7. október, þar sem ný stjórn félagsins verður kjörin. Allir hluthafar hafa kjörgengi til stjórnar. Allar nánari upplýsingar veitir Sigurður Arnfjörð í síma 864 9737.
Vesturferðir tóku þátt í kaupstefnunni VestNorden í Færeyjum í síðustu viku og kynntu þar sérstaklega til sögunnar nýjar vörur og ferðamöguleika um alla Vestfirði, sem mæltist vel fyrir. Mikil bjartsýni ríkir innan stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða um að tilgangur með kaupum á Vesturferðum í vor nái sínu markmiði og félagið verði í dreifðri eignaraðild þeirra sem hafa áhuga á vestfirskum ferðamálum, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn samtakanna.
Á myndinni eru Ester Rut Unnsteinsdóttir og Sigurður Arnfjörð Helgason meðstjórnendur og Sigurður Atlason formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða. Sigurður Arnfjörð annast nú framkvæmdastjórn samtakanna tímabundið eða til áramóta.
31.08.2011 Framkvæmdastjóri Vesturferða ráðinn til bráðabirgða
18.08.2011 Sameiginleg sölusíða allra ferðaþjóna á Vestfjörðum?