Tenglar

14. febrúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Fréttablað Reykhólaskóla hefur göngu sína

Forsíðan.
Forsíðan.

Komið er út fyrsta tölublaðið af nýju fréttablaði Reykhólaskóla. Það er eingöngu gefið út á rafrænu formi en hægt er að prenta það út. Í blaðinu eru margvíslegar upplýsingar og annað til gagns og gamans. Þar má nefna hugleiðingar Önnu Gretu Ólafsdóttur skólastjóra, raktar eru breytingar á starfsháttum og starfsliði frá upphafi skólaársins og síðan er litið fram á við yfir vorönnina. Undir fyrirsögninni Skólagagnrýni eru birtar umsagnir nokkurra nemenda í 5. og 6. bekk um skólann, bæði til lofs og um það sem þeim þætti betur mega fara. Þarna má líka lesa einar átján örsögur eftir nemendur í 1.-4. bekk undir fyrirsögninni Sögurnar okkar.

 

Blaðið ber heitið Vilji er vegur, en það eru einmitt einkunnarorð Reykhólaskóla.

 

 

Nokkrir punktar úr samantektunum um skólastarfið í vetur:

  • Lagðar voru niður deildirnar á leikskólanum og nú er aðeins ein deild með þremur hópum (Arnarhópi, Spóahópi og Kríuhópi). Íris er hópstjóri yfir Arnarhópi, Begga yfir Spóahópi og Ágústa yfir Kríuhópi. Hrefna Jónsdóttir bættist svo í leikskólaliðið. Inda er áfram stuðningsfulltrúi við skólann og Bjarni Jóhannesson var ráðinn stuðningsfulltrúi og var honum tekið fagnandi sem eina karlmanninum í starfsmannahópnum.
  • Ákveðið var að Ásta Sjöfn tæki við verkefnastjórn Grænfánaverkefnisins og er það komið vel af stað. Ákveðið var að nemendur færu heim með fernur og plast sem þau kæmu með í skólann. Í stofunum er flokkað í tvo flokka: Pappír annars vegar og almennt sorp hins vegar. Á göngunum er svo flokkað í þrjá flokka: Pappír, plast og pappa.
  • Nú er kominn febrúar og önnin fer vel af stað hér í skólanum. Keypt hafa verið ný borð og nýir stólar ásamt öðru smádóti. Heimavistin niðri er í yfirhalningu og verður framvegis notuð sem leikland fyrir nemendur skólans. Þar verða búningaherbergi, tæknisetur og legóveröld, svo eitthvað sé nefnt. Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka hana til notkunar í byrjun mars. Skólaselið mun framvegis hafa athvarf sitt í leiklandi.
  • Skólinn fær ellefu nýjar tölvur nú í byrjun mars enda vel tímabært að skipta um tölvur. Keyptar hafa verið þrjár spjaldtölvur og eru nú kennarar óðum að læra á tækin svo hægt verði að notast við þau í kennslu.

 

Sögurnar okkar eftir nemendur í 1.-4. bekk, tvær af átján:

  • Einu sinni var ung stelpa sem kom að Hyrningsstöðum og vildi fá að gista. En fólkið var fátækt og átti ekki nægan mat og pláss í húsinu. Og þau ráku hana burt. Veðrið var mjög vont en hún ætlaði að labba að næsta bæ sem heitir Barmar. En hún komst ekki alla leið og skreið í skjól á bak við klett sem heitir Skorhamar, og þar dó hún. Þessi stúlka hét Guðrún og hún var í rauðum sokkum og menn kölluðu hana Rauðsokku. Sumir halda að hún sé þarna ennþá sem afturganga. (Höfundur: Aníta Hanna).
  • Það var einu sinni strákur sem heitir Óli. Hann skrifaði í tölvuna um eina stelpu sem heitir Ása og strák sem heitir Ari og þau voru að lesa um eina mús og einn kettling. Það var bankað á dyrnar og þá kíkti Ari út en sá ekki neinn. Þarna var eitthvað grunsamlegt að gerast. Ari og Ása klæddu sig í föt og fóru út að kanna málið. Þá sáu þau tvo stráka að fela sig, það voru þeir Alexander og Daníel og þeir hlupu heim til sín þegar Ari og Ása ætluðu að segja þeim að þetta ætti ekki að gera. Endir. (Höfundur: Krummi).

 

Skólagagnrýni frá nemendum í 5. og 6. bekk, tvö sýnishorn:

  • Lengri frímínútur, betri matur, skólinn byrji kl. 10, íþróttir alla daga vikunnar og spjaldtölvur. Frímínúturnar eru stuttar, maturinn vondur, ömurlegt að vakna snemma, íþróttir eru skemmtilegar, tölvurnar eru ömurlegar. (Sandra Rún og Védís Fríða).
  • Mig langar að hafa skólann svona því mér líður bara vel eins og hann er. (Ásdís Birta).

 

Í inngangspistli sínum undir fyrirsögninni Þar sem vilji er vegur segir Anna Greta skólastjóri m.a.:

  • Eftir að ég tók við stöðu skólastjóra hér hef ég velt fyrir mér þáttum líkt og einstaklingsmiðað nám og skóli án aðgreiningar, heilsueflandi skóli, skóli á grænni grein, svo eitthvað sé nefnt. Ég hvet alla eindregið til að staldra aðeins við þessi hugtök, velta þeim fyrir sér og jafnvel mynda sér skoðun á þeim, og allra best væri að það leiddi af sér málefnalegar samræður í samfélaginu um skólamál.

 

Blaðið má sækja hér og líka á heimasíðu Reykhólaskóla.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31