Tenglar

6. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Friðarhlaupið í Reykhólasveit og friðartré gróðursett

Jón Gnarr ræsti Friðarhlaupið á Íslandi þetta árið þann 20. júní. Ljósm. mbl.is/Eggert Jóhannesson.
Jón Gnarr ræsti Friðarhlaupið á Íslandi þetta árið þann 20. júní. Ljósm. mbl.is/Eggert Jóhannesson.

Í Reykhólasveit verður á morgun, sunnudag, hlaupinn dálítill spölur í alþjóðlega Friðarhlaupinu og síðan gróðursett friðartré á Reykhólum. Mæting er við afleggjarann að Reykhólum (vegamótin rétt sunnan við Bjarkalund) klukkan hálfþrjú og lagt af stað kílómetrana fjórtán út að Reykhólum tíu mínútum seinna. Ekki verður farið mjög hratt því að áætlað er að koma að Reykhólum klukkan fjögur, þar sem Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir tekur á móti hópnum fyrir hönd Reykhólahrepps.

 

Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Hlaupið er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931-2007) sem m.a. ræsti hópinn þegar fyrsti áfanginn í íslenska Friðarhlaupinu var hlaupinn árið 1989.

 

Þetta árið hófst Friðarhlaupið hérlendis í Reykjavík 20. júní og stendur fram til 12. júlí. Sextán manna hópur af margvíslegu þjóðerni hleypur með kyndil í flestum þéttbýliskjörnum landsins undir merkjum sáttar og samlyndis meðal fólks um allan heim. Auk þess hlaupa eða skokka ungir sem aldnir í hverju byggðarlagi með hópnum, en þátttaka barna og ungmenna er einn af hornsteinum Friðarhlaupsins. Allir geta hlaupið eins langt og stutt og þeir vilja, en mestu skiptir að vera með.

 

Ekki síst er hvatt til þess að yngri krakkar tölti með hópnum síðasta spölinn áður en athöfnin þegar trjáplantan verður gróðursett hefst.

 

Gert er ráð fyrir að dagskránni á Reykhólum ljúki kl. 16.40.

 

Um Sri Chinmoy (Wikipedia á ensku)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jn 2024 »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30