Tenglar

25. mars 2020 | Sveinn Ragnarsson

Friðland stækkað í Flatey

Gula punktalínan er tillaga að mörkum friðlands. mynd UST
Gula punktalínan er tillaga að mörkum friðlands. mynd UST

Áform um endurskoðun friðlýsingar

Umhverfisstofnun, ásamt sveitarfélaginu Reykhólahreppi og landeigendum, kynnir hér með áform um endurskoðun á friðlýsingu Flateyjar á Breiðafirði. Um er að ræða stækkun á mörkum friðlandsins ásamt endurskoðun friðlýsingarskilmála.

Austurhluti Flateyjar á Breiðafirði var friðlýstur árið 1975 vegna fuglaverndar. Friðlandið nær yfir austurhluta eyjarinnar ásamt eyjum og hólmum sunnan við Flatey. Líffræðileg fjölbreytni svæðisins er mikil og er þar að finna  fjölskrúðugt fuglalíf sem byggist m.a. á fjölbreyttu fæðuframboði, miklum fjörum og takmörkuðu aðgengi rándýra að svæðinu

Í Flatey hefur um langt skeið verið náið samspil manns og náttúru þar sem nýting náttúruauðlinda hefur farið fram með sjálfbærni að leiðarljósi. Verndargildi svæðisins felst fyrst og fremst í að svæðið er búsvæði og varpsvæði mikilvægra fuglastofna á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða, þ.m.t. sjaldgæfra varpfugla á Íslandi og fugla sem eru á válista Alþjóða Náttúruverndarsamtakanna (IUCN).
Í friðlandinu er einstaklega fjölbreytt fuglalíf og þar er varpsvæði þórshana sem er sjaldgæfur fugl á landsvísu og er á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands sem tegund í hættu. Einnig verpa þar ábyrgðartegundir Íslendinga, s.s. kría og lundi. Þá er mikið æðarvarp innan marka friðlandsins. Á svæðinu eru miklar leirur með fjölbreyttu lífríki sem eru mikilvægar til fæðuöflunar fyrir margar tegundir fugla. Gróðurfar einkennist af túnum, grasmóum, gulstararmýrum og sjóflæðagróðri. Þar finnst marhálmur sem er sjaldgæfur á landsvísu. Vísindalegt gildi svæðisins er hátt og er fuglalíf vaktað og rannsakað þar reglulega.

Tillaga að mörkum svæðisins miðast við hnitsett mörk skv. hnitaskrá og eru birt á korti.


  

Áform um friðlýsingar eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Reykhólahrepps, landeigenda, Framfarafélags Flateyjar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Fyrirhuguð friðlýsing mun að lokum verða auglýst opinberlega í þrjá mánuði og öllum gefinn kostur á gera athugasemdir við framlagða tillögu.
Friðlýsingin miða að því að varðveita einkenni og sérstöðu svæðisins bæði hvað varðar lífríki. Í auglýsingum um friðlýsingar er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni. Þá er jafnframt heimilt að kveða á um að afla skuli leyfis Umhverfisstofnunar til athafna og framkvæmda sem áhrif geta haft á verndargildi viðkomandi svæðis.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 25. maí 2020. Athugasemdum má skila á eyðublaði hér fyrir neðan, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða senda með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Frekari upplýsingar veita Freyja Pétursdóttir (freyjap@ust.is) og Edda Kristín Eiríksdóttir (eddak@umhverfisstofnun.is) með tölvupósti eða í síma 591-2000.


Af vef Umhverfisstofnunar

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31