Tenglar

19. apríl 2012 |

Frjálsir tifa vorsins léttu lækir

Vorkvæðið sem hér er birt orti Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) á sínum tíma fyrir sönghóp í Reykhólahreppi, sem nefndi sig Litlu flugurnar. Kvæði Eysteins er tilbrigði við Litlu fluguna eftir Sigurð Elíasson á Reykhólum (Lækur tifar létt um máða steina) og með mörgum tilvísunum í það kvæði. Eins og hér hefur komið fram samdi Sigfús Halldórsson tónskáld lagið við kvæði Sigurðar á átta mínútum í stofunni hjá honum (þar sem núna er gistiheimilið Álftaland). Í vetur voru sextíu ár liðin frá því að Sigfús samdi þetta vinsælasta lag sitt.

 

Indiana Ólafsdóttir á Reykhólum sendi vefnum í morgun kvæði Eysteins í tilefni dagsins. Lagið við kvæðið er að sjálfsögðu Litla flugan hans Sigfúsar Halldórssonar.

 

Gaman væri að fá hér í athugasemdakerfið eða í tölvupósti upplýsingar um sönghópinn Litlu flugurnar, svo sem hvernig hann varð til og hvenær, hverjir (hverjar) skipuðu hann, hve lengi hann starfaði og annað sem til fróðleiks má horfa.

 

 

Frjálsir tifa vorsins léttu lækir,

litlar fjólur brosa sólu mót.

Ungir piltar spenntir mjög og sprækir

spá í hverja íturvaxna snót.

          Allir kaldir vetrarvindar þagna,

          vorsins gleði fer um land og sæ.

          Í hverjum glugga „litlar flugur“ fagna,

          og fljúga út í lífsins milda blæ.

 

Þar skal verða kátt og sungið saman,

í sumardýrð við kveðum nýjan brag.

„Litlar flugur“ auka glens og gaman,

við gítarslátt og söngva hér í dag.

          Þar ganga aftur vorar fornu flugur,

          og frjálsar kitla ung og gömul nef.

          Þá lifnar daufur okkar æskuhugur,

          við endurvakin glaðra tóna stef.

 

Gaman er á vorsins grænu völlum,

þar verma bráðum fuglar eggin smá.

Sól og vindar bræða fönn á fjöllum

og fólkið gleymir vetrardrunga þá.

          Við skriðufótinn heilsa bláu blómin,

          barn að leik, og þá er skapið kátt.

          Því vorið er að æskumannsins dómi

          svo yndislegt og gott á flestan hátt.

 

 

Samdi Litlu fluguna á átta mínútum (15. apríl 2009)

Hvernig Litla flugan varð til (14. apríl 2009)

 

Athugasemdir

Svanhildur Jónsdóttir, mivikudagur 02 ma kl: 15:14

ATH: Við skriðufótinn heilsar bláu blómi,

Alveg sannfærð um að þessi hending á að vera svona.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31