Tenglar

28. júlí 2012 |

Fróðleiksbrunnur: „Flateyjarbók hin nýja“ komin út

Út er komin sérstök afmælisútgáfa af Símaskrá Flateyjar í tilefni tíu ára útgáfu hennar. Símaskráin er í reynd skrá yfir meira en 600 Flateyinga, Inneyinga, Velunnara Flateyjar og aðra er tengjast húsum í Flatey, Hvallátrum, Skáleyjum, Svefneyjum og Sviðnum. Hún hefur vaxið og dafnað í áranna rás og er með réttu orðin yfirgripsmikil uppflettibók um Flatey, Flateyinga og málefni Flateyinga. Stöðugt hefur nýtt efni bæst í skrána, sem gerir hana bæði læsilegri og betra uppflettirit og heimildarit sem leitað er í aftur og aftur til fróðleiks og aðstoðar. Segja má í reynd að símaskráin standi undir því nafni sem sumir hafa gefið henni: Flateyjarbók hin nýja.

 

Fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju gefur símaskrána út. Ritstjóri hennar er Gunnar Sveinsson.

 

Safnað hefur verið saman í þessa bók miklu af áhugaverðu efni fyrir fróðleiksþyrsta Flateyinga, Inneyinga og Breiðfirðinga. Þar eru upplýsingar um félög og nefndir Flateyinga, heilræði til Flateyinga og gesta í Flatey, upplýsingar um félagsmál Flateyinga, ágrip af sögu húsa í Flatey ásamt mynd af hverju húsi, myndræn lýsing á listaverkum Baltasars í Flateyjarkirkju og þeirri sögu sem þau segja, fróðleg og gagnleg leiðsögn með myndum um Flatey frá bryggju inn að Lundabergi, sagt frá öryggismálum í Flatey og komið þar inn á slysaáætlun, brunaáætlun og ágang sjávar og hættur því samfara.

 

Síðast en ekki síst má nefna ítarlegt „fréttahorn Flateyjar“ þar sem drepið er á deiluna um deiliskipulag í Flatey og hugsanlega sölu lóða í Flatey, fjallað um hinn merka samfélagssamning Flateyinga sem er einstakur í sinni röð og Eyjaþingið þar sem félagsmál Flateyjar náðu ákveðnum hápunkti, um gerð stíga í Flatey sem ferðamenn og heimamenn ganga nú eftir en kindur sækja líka í, um þá baráttu vatnsveitumanna að miðla vatni um alla ey og sjá til þess að vatn sé í krönum Flateyinga, um bjartsýnismenn sem byggja upp frystihúsið sem ekki var alltaf augnayndi, og um Flateyjarkirkju þar sem mikið stendur til, en hún fær aura sína m.a. frá þyrstum Flateyingum og ferðamönnum í Flatey. Til að kóróna fréttaflutninginn er sagt frá því sem Reykhólahreppur er að sýsla með í málefnum Flateyjar á fundum sínum.

 

Þeir sem vilja eignast eintak af „Flateyjarbók hinni nýju“ og fá hana senda heim til sín geta leitað til ritstjórans, Gunnars Sveinssonar, Eyjólfshúsi, Flatey, sími 824 5651, netfang gunnarsv@landspitali.is. Ritið kostar 2.000 krónur sem renna óskiptar til Flateyjarkirkju. Einnig er skráin seld í verslunni Sjávarborg í Stykkishólmi og í Flatey fæst hún á Hótel Flatey, í Krákuvör og í Læknishúsi.

 

Hér skal jafnframt minnt á tvær nýjar syrpur af glæsilegum myndum frá hendi Árna Geirssonar, sem nefnast Flatey úr lofti og Sumardagur í Flatey. Þær er að finna í valmyndinni hér vinstra megin undir Ljósmyndir / Ýmis myndasöfn / Árni Geirsson. Líka má fara þar beint inn með því að smella hér. Þarna eru líka margar fleiri syrpur af myndum sem Árni hefur tekið fljúgandi á vélknúnum svifvæng yfir Reykhólum og sveitum Reykhólahrepps á undanförnum árum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31