Tenglar

19. desember 2015 |

Fróðleiksrit sem heldur sínu striki

1 af 14

Árbók Barðarstrandarsýslu fyrir árið 2015 er nýkomin út. Þetta er 26. árgangur ritsins, sem Sögufélag Barðastrandarsýslu gefur út. Tveir af efnisþáttunum eru langsamlega viðamestir: Annars vegar samantekt Finnboga Jónssonar frá Múla á Skálmarnesi um kirkju á Múla að fornu og nýju, hins vegar frásögn Þórðar Jónssonar á Látrum (1910-1987) um ævintýraferðina þegar björgunarbáturinn Gísli J. Johnsen var sóttur til Gautaborgar vorið 1956, en Þórður var mótoristi í þeirri ferð. Ólafur B. Thoroddsen bjó frásögn Þórðar til prentunar og ritar inngang.

 

Sædís Íva Elíasdóttir segir frá ættingjagöngu austan frá Barðaströnd um Sigluneshlíðar og Skorarhlíðar að Melanesi á Rauðasandi sumarið 2014. Þá eru birtir tugir vísna eftir Hafstein Guðmundsson frá Skjaldvararfossi (Fossi á Barðaströnd), en Jónína Hafsteinsdóttir valdi vísurnar og ritar inngangsorð. Síðan er í ritinu erindi sem María Játvarðardóttir frá Miðjanesi í Reykhólasveit flutti á Ólafsdalshátíð í sumar um hjónin Torfa Bjarnason og Guðlaugu Zakaríasdóttur í Ólafsdal og um foreldra sína, hjónin Játvarð Jökul Júlíusson og Rósu Hjörleifsdóttur á Miðjanesi.

 

Undir lokin eru æviatriði sýslunga sem féllu frá árið 2014, skýrsla stjórnar Barðstrendingafélagsins fyrir árið 2014 og skýrsla formanns Kvennadeildar Barðstrendingafélagsins fyrir árið 2014. Daníel Hansen ritstjóri skrifar minningarorð um Lýð Björnsson sagnfræðing og kennara, sem var „... ein af styrkustu stoðum Árbókar Barðastrandarsýslu“. Lýður var fæddur í Strandasýslu en alinn upp í Gufudalssveit og var það alltaf ,,hans sveit“ eins og hann sagði. „Að öllum öðrum ólöstuðum held ég að Lýður hafi varðveitt mest af öllum sýslungum um sagnfræði og þjóðlegan fróðleik í Barðastrandarsýslu,“ segir Daníel. Loks er gerð grein fyrir höfundum efnis, sjá mynd nr. 13.

 

Sögufélag Barðastrandarsýslu og Árbókin spanna Austur-Barðastrandarsýslu (Reykhólahrepp hinn nýja) og Vestur-Barðastrandarsýslu (Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp). Á þessu svæði voru hreppar margir en eftir sameiningar á síðustu áratugum eru sveitarfélögin milli Arnarfjarðar og Gilsfjarðar orðin aðeins þrjú. Landsvæði þeirra er samtals um 2.600 ferkílómetrar.

 

Árbókin er talsvert á þriðja hundrað blaðsíður með vel á annað hundrað myndum af margvíslegu tagi. Ritstjóri er Daníel Hansen en ritnefnd ásamt honum skipuðu Lilja Magnúsdóttir, Ragna Steinunn Eyjólfsdóttir, Rögnvaldur Bjarnason og Þrymur Sveinsson. Myndina á forsíðu tók Finnbogi Jónsson frá Múla á Skálmarnesi.

 

Upplýsingar um höfunda efnis má sjá á mynd nr. 12. Allar myndirnar sem hér fylgja eru úr ritinu.

 

Þess má geta, að áðurnefndur Finnbogi Jónsson frá Skálmarnesmúla er aðalhöfundur og ritstjóri fjórða bindis Vestfjarðarita Útgáfufélags Búnaðarsambands Vestfjarða, sem út kom fyrir réttu ári. Það ber heitið Hjalla meður græna og fjallar um Austur-Barðastrandarsýslu.

 

Meðal fjölmargra ritverka áðurnefnds Lýðs heitins Björnssonar sagnfræðings er byggðarsagan Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum, sem hann ritaði ásamt Ástvaldi heitnum Guðmundssyni frá Kleifarstöðum í Gufudalssveit og út kom fyrir þremur árum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31