Froskur, útungun, gott veður - og kannski hamstur!
Við krakkarnir erum að unga út hænueggjum. Við fengum útungunarvél lánaða hjá Möggu í Borg. Settum 7 egg í vélina 4. mars og áætlaður útungartími er 25. mars. Þegar ungarnir koma úr eggjunum ætlum við að ala þá fyrst um sinn í stofunni og finna þeim svo framtíðarheimili.
Þetta kemur fram í frétt á vef Reykhólaskóla. Þar eru núna þemadagar með yfirskriftinni Fjölmiðlar og krakkarnir skrifa fréttir á vefinn. Í þeirri sem hér um ræðir kemur líka fram, að í stofunni hjá 5.-6. bekk er froskur búsettur. Svo langar krakkana í hamstur til viðbótar.
Í annarri frétt, sem Sindri Júlíus í 10. bekk og Aron Viðar í 7. bekk skrifa, segir:
Eftir leiðinlegt veður undanfarið kom loksins logn og gott veður. Flestir Reykhólabúar héldu að það væri að koma heimsendir, þetta var í fyrsta sinn í langan tíma sem það hefur verið svona gott veður. En allir krakkar nutu þess og voru úti að leika sér. Meira segja kennararnir voru úti í góða veðrinu.
Fréttamyndirnar sem hér fylgja eru fengnar af skólavefnum, en þar er að finna miklu fleiri myndir frá lífinu og starfinu í Reykhólaskóla, bæði innan húss og utan.
Hér skal jafnframt minnt á árshátíð skólans, sem verður annað kvöld, föstudag. Þar eru allir velkomnir eins og endranær, sjá nánar hér.
► Vefur Reykhólaskóla (fylgist með)