Frummatsskýrsla til umsagnar og athugasemdagerðar
Vegagerðin tilkynnir hér með 19,9-22,0 km langa vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness við norðanverðan Breiðafjörð, framkvæmd sem fellur undir 5. gr. laga nr. 106/2000 með síðari breytingum um mat á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum, sú sem hér er kynnt, hefur verið send Skipulagsstofnun. Stofnunin kynnir framkvæmdina og skýrsluna með auglýsingum auk þess sem hún mun liggja frammi til kynningar til 8. desember á bæjarskrifstofu Reykhólahrepps, Hótel Bjarkalundi, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun.
Framkvæmdin er í sveitarfélaginu Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu. Um er að ræða nýjan veg í stað vegar sem liggur frá Bjarkalundi, fyrir botn Þorskafjarðar, yfir Hjallaháls, fyrir botn Djúpafjarðar, yfir Ódrjúgsháls og fyrir botn Gufufjarðar að Skálanesi við vestanverðan Þorskafjörð. Á leiðinni eru fjórar einbreiðar brýr og brattir, krókóttir og snjóþungir kaflar eru um Hjallaháls og Ódrjúgsháls.
Þetta kemur fram hér á vef Vegagerðarinnar í gær, sjá nánar.
Þar er jafnframt tengill á frummatsskýrsluna. Umsagnir og athugasemdir við hana skal senda til Skipulagsstofnunar (skipulag@skipulag.is).
Frestur almennings til að skila inn umsögnum og athugasemdum er til 8. desember 2016.
Meðfylgjandi mynd er úr skýrslunni.