Fuglatalningunni frestað um viku
Sakir veðursins varð ekki hjá því komist að fresta hinni árlegu vetrarfuglatalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem fara átti fram núna um helgina. Í staðinn er hún áformuð um næstu helgi. Reykhólamenn eru jafnan ötulir við þessa talningu sem farið hefur fram nálægt áramótum í sextíu ár.
Markmið vetrarfuglatalninga er að kanna hvaða fuglategundir dvelja hérlendis að vetrarlagi, meta hversu algengir fuglarnir eru og í hvaða landshlutum þeir halda sig. Upplýsingarnar nýtast einnig til að fylgjast með langtímabreytingum á stofnum margra tegunda.
Allt frá því að fyrst var talið í desember 1952 hafa sjálfboðaliðar um land allt annast verkið. Talningarnar eru staðlaðar og upplýsingarnar sem safnast í vetrarfuglatalningunum eru mikilvægar fyrir fuglafræðinga og náttúrufræði almennt.