Tenglar

19. febrúar 2013 |

Fulltrúar Bændasamtakanna koma á Ingunnarstaði

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, er ásamt lögfræðingi samtakanna væntanlegur að Ingunnarstöðum í Geiradal á morgun. Erindi þeirra vestur er að ræða við Daníel bónda um þá sérkennilegu stöðu sem hann er í og kynna sér mál hans. Í dag eru liðnir hundrað dagar frá því að Daníel var sviptur mjólkursöluleyfi. Fyrir þremur dögum birtist hér á vefnum ítarlegt viðtal við hann.

 

Reykhólavefurinn hafði samband við Harald Benediktsson og spurði hann út í aðkomu Bændasamtakanna að máli Daníels.

 

„Það er vandasamt og viðkvæmt að fjalla opinberlega um mál einstakra bænda og því í raun ómögulegt að svara röngum ávirðingum. Fyrst vil ég segja, að ýmislegt af því sem kemur fram í viðtalinu við Daníel á Reykhólavefnum er ekki alveg mjög nákvæmt um aðkomu Bændasamtakanna að hans málum,“ segir Haraldur. „Ég get ekki rakið það hér, en út af orðum hans í þessu viðtali höfum við látið taka saman greinargerð um það hvernig við höfum komið að þessum málum. Sú greinargerð segir allt aðra sögu.

 

Við höfum líka áður fengið orðsendingu frá honum með öðrum hætti um að við hefðum ekki sinnt þessu máli og beiðni til mín að hafa samband við Daníel, það gerði ég strax eftir að ég hafði fengið einhverja mynd á málið. Það er ekki þannig að formaður Bændasamtakanna vinni í einstökum málum.

 

En ég vil þó segja að starfsfólk okkar hefur sinnt málinu og að við getum hins vegar ekki unnið verk eða sinnt málum sem við erum ekki beðin um. Þá er það stundum þannig að staðreyndir eru óþægilegar og erfitt að horfast í augu við það. Þó að liðnir séu hundrað dagar frá því að hann missti mjólkursöluleyfið vissum við ekkert um það mál umfram það sem komið hefur í fjölmiðlum. Ég hefði gjarnan viljað að Daníel hefði leitað til ráðunauta okkar um aðstoð og ráð um úrbætur, þegar hann hafði frest til úrbóta vegna athugasemda Matvælastofnunar, áður en hann missti framleiðsluleyfið.“

 

- En þegar málið fór í fjölmiðla á sínum tíma, hefði þá ekki verið ástæða til þess fyrir Bændasamtökin að kanna það og hugsanlega bregðast við með einhverjum hætti?

 

„Við getum ekki í kjölfar á fréttaflutningi, sem er nú með ýmsum hætti, farið að reyna að koma okkur inn í mál þar sem ekki hefur verið óskað eftir aðkomu okkar. Menn verða að bera sig eftir slíku.“

 

Aðspurður segir Haraldur að hann og lögfræðingurinn komi einmitt núna vegna óska sem borist hafi í síðustu viku um að þeir skoði þetta mál.

 

„Við höfum því miður engin verkfæri til að leysa það, geri ég ráð fyrir, en við getum vonandi gefið einhverjar leiðbeiningar um hvert ætti helst að snúa sér. Jafnframt þurfum við að skilja málið betur, fá að vita betur hvað hefur gengið á undan. Það eru vissulega ákveðin álitamál og spurning hvort allt hafi verið gert nákvæmlega rétt gagnvart Daníel, það liggur líka fyrir að reynt hefur verið að leysa málið í langan tíma. Málið hefur tvær hliðar. Óvissu verður að ljúka og botn að fást í framtíðina.

 

En ég vek athygli á því sem fram kemur í viðtalinu, að hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta þegar á árinu 2011, þannig að ég sé ekki alveg hvort það sé stórmál hvort Bændasamtökin komi hundrað dögum eftir að hann hefur verið sviptur mjólkursöluleyfi miklu seinna. Það líður mjög langur tími frá því að hann er tekinn til gjaldþrotaskipta og þangað til hann missir mjólkursöluleyfið. Um ástæður gjaldþrotsins veit ég ekki. Hann hefur haft lögmenn sér til ráðgjafar og þeir hafa vafalaust reynt að finna lausnir og við vitum líka að hann hefur fengið tíma til að koma með tillögur að lausn. Það var vafalaust hægt að leiðbeina með úrbætur áður en hann missti leyfið,“ segir Haraldur.

 

„Daníel nefnir þarna að ég hafi svarað um mál með ákveðnum hroka. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann tjáð mig efnislega um aðstæður í fjósi hans, ég tjáði mig um meðferð á gripum er sýndar voru myndir af. Þeir gripir voru ekki í hans fjósi. Bændasamtök geta aldrei varið það ef menn eru ekki að fara eftir settum reglum eða vanhirða skepnur. Í því felst engin afstaða um hans aðstæður. Mál hans kom upp á sama tíma og ljótar myndir voru birtar af slæmri umhirðu. Í hvorugu þeirra tilvika hafði ég aðstæður til að meta athugasemdir Matvælastofnunar eða sjónarmið bændanna aðrar en út frá þeim myndum. Ég ítreka að Bændasamtökin verja ekki slæma meðferð á dýrum. Í því felst ekki dómur eða hroki af minni hálfu gagnvart Daníel.

 

Varðandi skuldamál bænda, þá hafa Bændasamtökin unnið í þeim allt frá fyrsta degi efnahagshrunsins og reynt að verða að liði. Margir bændur hafa leitað til samtakanna varðandi gerð rekstraráætlana og um leiðbeiningar hvernig þeir ættu að haga sínum málum. Við semjum hins vegar ekki fyrir bændur og við getum ekki leyst mál þeirra. Bændasamtökin hafa lagt áherslu á sérstöðu bænda, að búið er líka heimili þeirra og lifandi skepnum þarf að sinna. Ekki komast allir bændur í gegnum fjárhagslega erfiðleika og þess getum við heldur ekki krafist. Hins vegar höfum við lagt áherslu á að jarðir og bú séu ekki sett í eyði, því að slíkt bitnar á samfélaginu,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31