Fundur um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu
Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða (Atvest) í samvinnu við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Samtök ferðaþjónustunnar boða til fundar um mótun stefnu og framtíðarsýnar í íslenskri ferðaþjónustu núna á miðvikudaginn, 25. febrúar kl. 15-17, í Hnyðju, Þróunarsetrinu á Hólmavík. Þar verður rætt um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og kallað eftir ábendingum þátttakenda. Markmiðið er að byggja góðan grunn fyrir framtíð ferðaþjónustunnar og stuðla þannig að bættum lífskjörum í landinu.
Brýnt er að ferðaþjónar og aðrir sem eiga hagsmuni í ferðaþjónustu hafi aðkomu að verkefninu og geti komið á framfæri ábendingum og leiðum til að efla ferðaþjónustuna og gera hana alþjóðlega samkeppnishæfa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viktoríu Rán Ólafsdóttur, verkefnastjóra AtVest á Hólmavík.
Verkefnahópi ráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar er ætlað gera tillögu að stefnu og framtíðarsýn til lengri tíma og aðgerðaáætlun til skemmri tíma. Stefnt er að því að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í byrjun júní.
„Vonast er til að þú hafir lausa stund til þess að mæta,“ segir í tilkynningunni. „Það er vel þegið að þú takir með þér þá starfsmenn sem koma að þessum málaflokki. Miklar væntingar eru um víðtækt samstarf við mótun stefnunnar. Hlökkum til að hitta þig.“