Tenglar

19. október 2017 | Sveinn Ragnarsson

Fundur um nýtingu sjávargróðurs vel sóttur

1 af 10

Vel var mætt á fund sem haldinn var um rannsóknir og nýtingu sjávargróðurs, og stöðu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum.

Karl Gunnarsson frá Hafrannsóknarstofnun kynnti yfirstandandi rannsóknir á þang og þaramagni og endurvexti þess í Breiðafirði. Hann lýsti fyrirkomulagi mælinga sem kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá í mars 2017, sem Karl ásamt Julian Bourgos, Lilju Gunnarsdóttur, Svanhildi Egilsdóttur, Gunnhildi I. Georgsdóttur og Victor F. Pajuelo Madrigal eru höfundar að. Það sem kemur fram í skýrslunni er mat á stöðunni í dag, en ekki einhver endanleg niðurstaða og haldið verður áfram með mælingar. Samkæmt þessari skýrslu er heildarflatarmál fjara í firðinum talið um 144 km2 og þang á rúmlega 90 km2. Magn klóþangs er reiknað liðlega 1.1 millj. tonn, gróft reiknað er það um 12 kg á m2. Lengd einstakra plantna var mæld, og voru þær stærstu rúmir 3 metrar.

Arnór Snæbjörnsson lögfræðingur í Atvinnu og nýsköpunarráðuneyti kynnti nýja löggjöf um nýtingu sjávargróðurs, sem tekur gildi næstu áramót. Hún byggir á lögum um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald. Þótt Þörungaverksmiðjan hafi starfað rúm 40 ár hefur ekki verið til lagarammi um starfsemi fyrirtækja í þessari grein. Á sínum tíma var Þörungavinnslan byggð eftir að lög um þörungavinnslu við Breiðafjörð voru sett, en það var í og með gert vegna þess að ekki var sátt um hvar verksmiðjan skyldi rísa.

Á fundinum komu fram mjög ákveðnar efasemdir um að það stæðist að innheimta aflagjald af afrakstri hlunninda, en þangið vex á fjörum án tilstillis einhverra aðgerða, og fjörurnar eru í eigu viðkomandi landeiganda, svo þanguppskera hlýtur að teljast til hlunninda eins og önnur jarðargæði sem hægt er að nýta og koma í verð. Öðru máli gegnir um þarann sem vex úti á meira dýpi, utan netalaga.

Róbert A Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands flutti erindi um nýtingu sjávargróðurs, sjálfbærni í víðu samhengi og nauðsyn víðtækari rannsókna á lífkeðjunni í sjónum á þessu svæði. Hann benti á að magn- og vaxtarmælingar á þangi og þara, þó þær væru útaf fyrir sig góðar, þá væru þær á afmörkuðum þætti í vistkerfinu. Áhrif þangskurðar á aðrar lífverur, s.s. fiskseiði, fugla, -æðarungar sækja æti í þangið- smádýr og bakteríur eru ekki kunn, en erlendar rannsóknir benda til að þau geti verið nokkur.

Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar fór yfir stöðu hennar og horfur. Almennt er bjart yfir rekstri verksmiðjunnar, góðar söluhorfur, enda framleiðslan einstök gæðavara. Helstu viðfangsefni nú um stundir er viðhald og endurnýjun verksmiðjunnar sjálfrar, en litlar breytingar hafa verið gerðar á henni þessi 42 ár sem hún hefur starfað. Sem dæmi er búið að bæta orkunýtingu umtalsvert við þurrkunina. Gaman er að geta þess þó ekki kæmi það fram á fundinum, að breytingar og endurbætur sem gerðar voru á þurrkara verksmiðjunnar eru byggðar á lokaverkefni Matthildar Maríu Guðmundsdóttur í vélaverkfræði við HÍ., og hefur hún verið með í ráðum við efniskaup og uppsetningu elementa, blásara og stýribúnaðar sem allt var endurnýjað. Matthildur er barnabarn Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur í Mýrartungu.

Ennfremur gat Finnur þess að bryggjan á Reykhólum væri orðin verulega viðhaldsþurfi, en það er lífsspursmál fyrir verksmiðjuna að höfnin sé í góðu horfi.  

Jóhannes Haraldsson og Reynir Bergsveinsson, sem báðir hafa áratuga reynslu af þangskurði og eiga gögn yfir hvar þeir hafa slegið, hve mikið og fylgst með endurvexti, bentu á að árferði hefði gríðarmikil áhrif á endurvöxt og hvað einstök svæði gefa af sér. Síðari ár hafa verið hagstæð, nánast enginn lagnaðarís sem rífur upp þang, og hitastig sjávar í meðallagi. Þetta þarf að taka með í reikninginn þegar áætlað er nýtanlegt magn. Dæmi eru þess að endurvöxtur hafi ekki náð þessum 12 - 18.000 tonnum á ári á þeim svæðum sem aflað er, en það er magnið sem verksmiðjan hefur tekið á móti.

Undir lok fundar bauð Þörungaverksmiðjan fundargestum uppá kjötsúpu, svo enginn fór svangur heim.

 

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31