Fundurinn í Bjarkalundi: Ráðherra lokar ekki á neitt
Lauslega áætlað sóttu um eða yfir sjötíu manns opinn fund með Ögmundi Jónassyni ráðherra samgöngumála í Bjarkalundi í gærkvöldi, þannig að salurinn rúmaði ekki alla. Óhætt er að segja að fundurinn hafi farið mjög vel fram og verið gagnlegur. „Ég held að á þessum fundi hafi komið fram flest eða allt sem þurfti að koma fram“, segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps. „Segja má að ræddar hafi verið allar mögulegar útfærslur á leiðum sem fólk vill frekar að farnar verði en sú sem ráðherra lagði til fyrir skemmstu og kom til að verja“, segir hún.
Auk ráðherra voru á fundinum tveir menn úr ráðuneyti hans og þrír frá Vegagerðinni. Ráðherra var sjálfur fundarstjóri og fór það vel úr hendi. Fólk var kurteist í málflutningi þó að þung undiralda leyndi sér ekki. Fram kom það sem áður var vitað, að fólk er mjög andvígt því farið verði yfir Hjallaháls og Ódrjúgsháls heldur verði nýr vegur lagður á láglendi. Ekki sé annað bjóðandi í nútímanum.
Þegar ráðherra kynnti fyrir skömmu áform sín um að gerður verði nýr vegur í stórum dráttum eftir núverandi leið sagði hann koma til greina að gerð yrðu jarðgöng undir Hjallaháls. Fundargestir tóku því varlega og virtust ekki trúa að slíkt yrði gert næstu tuttugu árin eða svo. Fast var lagt að ráðherra að Þorskafjörður verði þveraður. Jafnframt vildu ýmsir að leið A framhjá Reykhólum út Reykjanes og þaðan yfir mynni Þorskafjarðar yfir á Skálanes verði greind betur og athugað hvort hún sé í raun og veru eins óhagkvæm og látið hefur verið í veðri vaka. Einhverjir vildu meina að hún hefði verið slegin út af borðinu án nægilegra röksemda.
Ráðherra þakkaði fundargestum greinargóðar upplýsingar sem hann myndi hafa með sér í farteskinu. Hann sagðist ekki vera lokaður fyrir neinum hugmyndum varðandi þetta mál þrátt fyrir hina margumtöluðu tilkynningu sína um áformað leiðarval um daginn.
Athygli vakti að meðal fundargesta var Þórólfur Halldórsson, fyrrum sýslumaður Barðstrendinga, sem jafnan hefur verið mikill áhugamaður um samgöngumál í þessum landshluta.
Meðfylgjandi myndir frá fundinum í Bjarkalundi tók Þórarinn Ólafsson í Stekkjarlundi.
Um hádegið í dag hélt ráðherra hliðstæðan fund á Patreksfirði og komu þar nokkur hundruð manns. Þegar ráðherra og forsvarsmenn sveitarfélaganna í Vestur-Barðastrandarsýslu höfðu ávarpað fundinn kom fram tillaga frá fundargesti þess efnis, að yfirlýstum áformum ráðherrans um leiðarval yrði mótmælt með því að ganga af fundi. Flestir fylgdu þeirri áskorun en nokkur hluti fundargesta sat fundinn áfram.