Fyrir 40 árum: Mikið tjón á læknisbústaðnum
Miðhúsum, Reykhólasveit
24. marz.
Það var ófögur aðkoma í læknisbústaðnum á Reykhólum er Jóhann Guðmundsson læknanemi, sem hingað kemur vikulega til læknisstarfa, kom vestur sl. föstudag. Í kjallara hússins var 60-70 sm djúpt vatn, um 40 gráðu heitt, og í öllu húsinu var eins og í gufubaði. Hafði heitavatnsleiðsla sprungið, sennilega fljótlega eftir að læknaneminn var hér síðast fyrir um 10 dögum.
Í kjallara hússins eru læknastofur og apótek og munu lyf fyrir 20-30 þúsund krónur hafa skemmzt. Skrifborð og innréttingar læknastofunnar eru ónýt og var óttazt að röntgentækin, sem eru fullkomin og mjög dýr hefðu skemmzt, en við fljótlega athugun virðist ekki svo vera. Mikil hætta er á að einangrunin sé ónýt, a.m.k. í kjallaranum. Einangrunin er tex á trégrind og er hætt við að hún verpi sig er hún þornar. Málning er ónýt í öllu húsinu vegna gufu. Er ljóst að hér hefur orðið mikið tjón og verður viðgerð kostnaðarsöm. Tvo síðustu dagana hefur verið unnið að því að þurrka húsið og í dag komu hingað tveir menn frá landlæknisembættinu til þess að kanna skemmdir. - Sv. G.
_____________________
Fréttin hérna fyrir ofan birtist á baksíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 25. mars 1969 eða fyrir réttum 40 árum.
- Sv. G. er fangamark Sveins heitins Guðmundssonar, bónda og kennara á Miðhúsum í Reykhólasveit, hins ötula og sívakandi fréttaritara Morgunblaðsins í héraðinu um áratugaskeið.