Fyrir utan hvað þeir feðgar eru óhemju skemmtilegir
Það var einkar vel tekið á móti okkur ferðaþjónum á Vestfjörðum sem fjölmenntum í Reykhólasveit um helgina á aðalfundarhelgina okkar. Gestrisnin var til fyrirmyndar og gleðin og fjörið sem heimamenn skópu munu seint eða aldrei renna úr minni nokkurs manns sem þangað mætti. Sveitin skartaði sínu fegursta og gestgjafar okkar tóku sérlega vel á móti okkur.
Þannig hefst kveðja til íbúa Reykhólahrepps sem Sigurður Atlason formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða sendi vefnum til birtingar og finna má hér og líka undir Sjónarmið » Kveðja til íbúa Reykhólahrepps í valmyndinni vinstra megin. Sigurður kemur víða við og nefnir ýmsa til sögunnar þar sem hann fjallar um dásemdir Reykhólahrepps og kynni af fólki og þeim stöðum sem heimsóttir voru í tengslum við aðalfund samtakanna núna um helgina.
Nokkrar glefsur úr þakkarpistli Sigurðar Atlasonar:
Ég vil fyrir hönd okkar allra sem sóttum aðalfundarhelgina koma sérstökum kveðjum til Hörpu Eiríksdóttur ferðamálafulltrúa Reykhólahrepps. Það eru engar ýkjur að við erum öll agndofa yfir þessum ótrúlega karakter og megi sem flestir smitast verulega af krafti hennar og gleði.
Kolla, Oddur og allt starfsfólk Hótel Bjarkalundar fór um okkur mjúkum höndum og við nutum innilegrar gestrisni þar í góðu atlæti. Matur og gisting eru fyrsta flokks og það er ánægjulegt að sjá hvaða alúð er lögð við alla uppbyggingu á og við hótelið.
Það var gaman að fá fregnir af þeirri uppbyggingu sem er framundan hjá gistiheimilinu Álftalandi á Reykhólum þar sem stendur til að bæta við enn fleiri herbergjum.
Að fá að heimsækja Sjávarsmiðjuna í þorpinu og kynnast eins og kostur var þaraböðunum og öllum þeim áformum sem eru framundan þar. Svanhildur tók þar á móti okkur með þeim þokka sem einungis prýðir sómafólk.
Það var ekki síður ánægjulegt að sjá hve vel hefur til tekist að spinna saman Hlunnindasýninguna og Bátasafnið. Það er vel gerð vinna og ber vitni um að þar er vandað til verka.
Fregnir af frekari uppbyggingu á tjaldsvæðinu á Melanesi og því sem er framundan hjá Arnarsetrinu í Króksfjarðarnesi þar sem stendur til að opna litla kynningarsýningu um verkefnið í sumar á handverksmarkaði Össu eru enn önnur dæmi um þann dug og kraft sem finna má í Reykhólahreppi.
Heimsókn okkar til feðganna á Seljanesi á bíla- og dráttarvélasafnið er í einu orði sagt mögnuð upplifun. Maður verður orðlaus og agndofa yfir þeim dugnaði og áhuga sem skín þar í gegn af hverjum hlut á þeim magnaða stað. Fyrir utan hvað þeir feðgar eru óhemju skemmtilegir og gaman að hlýða á og vera með.
Það var ekki síður upplifun að fá að smakka á kjötinu og bjúgunum frá Reykskemmunni á Stað sem hjónin Eiríkur og Fríða standa svo myndarlega að. Ég man ekki eftir því að reyktar landbúnaðarafurðir bráðni jafnvel í munni og það sem þau buðu upp á.
Leikfélagi sveitarinnar og öllum þeim sem styttu okkur stundir og stóðu fyrir dagskránni á hátíðarkvöldinu þökkum við kærlega fyrir. Þið eruð einfaldlega óborganlega skemmtileg.
Sjá einnig frétt um aðalfund Ferðamálasamtakanna: Þreyttur á leiðinlegri baráttu
P.s.: Lokaorðin í pistli Sigurðar, Reykhólahreppur er með'etta, eru tilvísun í slagorð í væntanlegri auglýsingasyrpu ferðamálasamtaka um land allt: Ísland er með'etta.
Harpa Eiríksdóttir, mnudagur 16 aprl kl: 19:06
það er frábær kynning að fá svona skemmtilegan og hvetjandi pistil fá formanninum sjálfum. Þetta var frábær helgi í alla staði og ég var að rifna úr stolti að geta kynnt ferðaþjónum á Vestfjörðum allt það sem við erum að gera hér í sveit. Reykhólahreppur er svo sannarlega með´etta og meira til